Veðurstofa Íslands býst við miklum vatnselg og slæmri færð fyrir bíla og vegfarendur vegna hálku á föstudag og inn í helgina. Þá býst bráðamóttaka Landspítalans við hálkuslysum en hún er illa mönnuð til að sinna þeim.

Eftir óvenju langan frostakafla er mikill viðsnúningur í kortunum og hlý sunnanátt á leiðinni. Hún ber með sér talsverða rigningu sunnan- og vestanlands, með hitatölum frá 5 upp í 9 stig samkvæmt spá Veðurstofunnar. Norðan- og austanlands má búast við sunnan-hnúkaþey og hitinn gæti farið í 10 gráður eða rúmlega það þar sem vindurinn nær að blanda hlýja loftinu niður á jörð.

„Það er spáð asahláku á öllu landinu og afleiðingarnar af því eru flughálka,“ segir Teitur Arason veðurfræðingur. „Það verður hált og mjög erfið færð út af blautum klaka.“

Teitur segir að búast megi við miklum vatnselg. Fólk þurfi því að huga að því að vatn komist leiðar sinnar í niðurföll, bæði rigningarvatn og vatn sem fellur til þegar snjórinn bráðnar. En þrátt fyrir að sveitarfélög vinni hörðum höndum að því að fjarlægja snjó er enn þá mikið magn snjós og klaka í þéttbýlinu.

Til sveita er líka önnur hætta sem skapast, af flóðum. „Nokkuð víða á landinu eru ár í klakaböndum. Það er möguleiki á að þær ryðji sig og þá verða staðbundin flóð þar sem þær mynda klakastíflur og flæða yfir bakka,“ segir Teitur. Af þessu getur orðið tjón. „Það má búast við að þetta veður valdi áhrifum. Óljóst er þó hvernig þetta verður,“ segir hann. Gul viðvörun hefur verið gefin út vegna hvassviðris sunnan- og vestanlands á föstudagsmorgun. Asahlákuviðvörun er á öllu landinu eftir það, en hún er sjaldan gefin út.

Hjalti Már Björnsson yfirlæknir á Bráðamóttöku Landspítalans.
Fréttablaðið/Vilhelm

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, segir að vel sé fylgst með stöðunni í samstarfi við Veðurstofuna. Upplýsingagjöf sé mikilvæg, einkum vegna hættunnar á flóðum. „Enginn veit hvar það gerist. Það er vandamálið,“ segir Hjördís.

Bráðamóttaka Landspítalans býst líka við erli um helgina vegna hálku. „Við höfum séð þessa veðurspá og höfum áhyggjur af því að margir detti og slasi sig í hálkunni,“ segir Hjalti Már Björnsson yfirlæknir. Mönnunin er hins vegar dræm eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. „Við hefðum viljað vera betur undirbúin en að sjálfsögðu tökum við á móti öllum eins og hægt er,“ segir Hjalti.

Í mikilli hálku kemur talsvert af fólki með beinbrot, oft á úlnlið eða fæti. Einnig er talsvert um höfuðáverka. „Sumt getur verið alvarlegt,“ segir Hjalti. Hvetur hann alla til að nota mannbrodda og fara sérstaklega varlega í hálkunni sem fram undan er.