Verulegur samdráttur varð í notkun sýklalyfja á síðasta ári en ávísunum sýklalyfja fækkaði um sextán prósent á milli áranna 2019 og 2020.Á tímabilinu 2015–2019 var meðalfjöldi ávísana 670 ávísanir á hverja þúsund íbúa en á síðasta ári voru þær 500 á hverja þúsund.

Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítala, segir að líklega sé um beina tengingu á milli aukinna sóttvarna og minni sýklalyfjanotkunar að ræða.„Fólk er náttúrlega að huga sérstaklega vel að smitvörnum núna og er meira heima, þá verður smittíðni almennt minni í samfélaginu og þar af leiðandi verður sýklalyfjanotkun minni,“ segir Björn.

Aðspurður um það hvaða áhrif minni notkun sýklalyfja geti haft á sýklalyfjaónæmi segir Björn að of snemmt sé að segja til um það en sýklalyfjaónæmi er af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni metið sem ein mesta ógn heilbrigðis í heiminum.

„Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans hefur haldið gríðarlega vel utan um tíðni fjölónæmra baktería og sem betur fer höfum við ekki verið í hættulegum tölum hér á landi en þetta fer vaxandi,“ segir Björn. Þegar talað er um fjölónæmar bakteríur er átt við bakteríur sem sýklalyf hrína ekki á.

„Bakteríur eru alveg ótrúlega sniðugar og fljótar að mynda ónæmi og vírusinn er náttúrlega að stökkbreytast líka, hann finnur sér leiðir fram hjá svo þetta á líka við um vírusa, en bakteríurnar eru það sem við höfum haft meiri áhyggjur af í gegnum tíðina.“Að sögn Björns hafa komið upp fjölónæmisbakteríustofnar hér á landi en starfsfólk spítalans sé stöðugt á varðbergi gagnvart slíkum sýkingum.„Sýkla- og veirufræðideildin skimar fyrir slíkum sýkingum reglulega,“ segir Björn.

Minni sýklalyfjanotkun jákvæð áhrif COVID-19

„Það má því segja að það sé jákvæður punktur í faraldrinum að það sé að draga úr notkun sýklalyfja og það mun draga úr fjölónæmum bakteríum,“ segir Björn, en bætir við að hann telji að þróunin verði fljót að breytast með tilslökunum á sóttvarnareglum. „Þá fer fólk að sýkjast aftur, en ekki aðeins vegna þess heldur er tíðni sýkinga alltaf há á þessum árstíma.“Björn segir mikilvægt að fólk haldi áfram að huga vel að sóttvörnum þrátt fyrir að faraldurinn sé í lágmarki hérlendis.

„Fólk verður bara að reyna að temja sér skynsamleg viðbrögð og þá er ég ekki að mælast til þess að fólk gangi um með maska eða spritti sig í tíma og ótíma, heldur það að passa upp á hreinlæti og handþvott á sama tíma og við lifum lífinu lifandi,“ segir Björn.