Öku­maður sem festi bíl sinn í Kalda­klofs­kvísl við Hvann­gil í morgun beið í tvo tíma á þaki bílsins í miðri ánni áður en honum var bjargað. Þetta kemur fram í til­kynningu frá björgunar­sveitum.

Björgunar­sveitir frá Hellu og Hvols­velli voru kallaðar út vegna öku­mannsins sem festi bíl sinn í ánni. Hann kom sér eins og áður segir upp á þak á meðan vatn flæddi inn í bílinn.

Í til­kynningunni segir að vel hafi tekist að koma manninum í land en nú er unnið að því að koma bílnum úr ánni. Var hann farinn að grafast niður og mátti ekki tæpara standa að bjarga manninum.

Björgunar­sveitir benda á að vegna rigninga hefur vaxið mikið í ám á há­lendinu og eru margar þeirra því ill­færar nú um mundir, jafn­vel ó­færar ó­breyttum jeppum.

Fréttablaðið/Aðsend
Fréttablaðið/Aðsend