„Planið var að vera á Íslandi í viku, en svo breyttist allt og ég er búinn að vera hérna í rúma tvo mánuði,“ segir Bryan Billy, atvinnupókerspilari frá Bandaríkjunum.
Bryan fór í byrjun mars með kærustu sinni, Rebecu, í ferðalag um Evrópu sem fól í sér vikudvöl á Íslandi. Bryan ílengdist þó í ferðinni og hefur hann nú beðið af sér kóróna­veirufaraldurinn á Borgarfirði eystri.

„Rebecu dreymdi um að sjá norðurljósin svo við komum hingað til þess. Svo skall faraldurinn á og hún fór aftur til heim til sín, en hún býr í Kosta Ríka,“ segir Bryan. Það var ekki auðvelt fyrir Rebecu að komast heim, en þegar hún stefndi á heimferð seinni hluta marsmánaðar höfðu ýmsar ferðatakmarkanir verið settar á.

„Þarna var allt að breytast og það var erfitt að fá svör frá flugfélögunum. Þetta gekk ekki alveg eins og þetta átti að ganga, svo hún þurfti að bíða hér í sólarhring áður en hún komst heim,“ segir hann.

Bryan stefndi á að fara til Taílands en gat ekki hugsað sér að skilja Rebecu eftir á Íslandi. Landamæri Taílands voru á þessu tíma við það að loka og erfitt var að komast þangað svo hann tók þá ákvörðun að vera hér lengur.

„Ég fann hús á Airbnb, sem var staðsett á Borgarfirði eystri, sem ég gat fengið á góðu verði svo ég sló til. Síðan þegar sá leigusamningur rann sitt skeið var mér bent á íbúð til leigu hér og ég skellti mér á hana, svo ánægður er ég hér,“ segir Bryan.

Að sögn Bryans er hann alinn upp í Boston en hann hefur búið víða, til að mynda í Kosta Ríka, New York og Las Vegas.

Bryan segir andrúmsloftið á Borgarfirði eystri afar gott, en að hann sé óvanur því að búa á svo fámennum stað. Á svæðinu búa aðeins um hundrað manns.

„Það hafa allir tekið mér ótrúlega vel. Mér hefur verið boðið í matarboð, alls konar hittinga og svo spila ég fótbolta með fólki hér á svæðinu,“ segir Bryan og bætir við að fótboltahæfileikar hans séu þó ekki miklir. „Ég er vanur að spila amerískan fótbolta en þau sýna mér mikla þolinmæði.“

Bryan stefnir á að fara aftur heim til Bandaríkjanna á næstu vikum.

„Það er búið að vera dásamlegt að vera hérna og við munum koma aftur til að sjá norðurljósin betur, skoða fleiri staði og borgina. Það er viðkunnanlegt fólk alls staðar, en mín upplifun er sú að hinn almenni Íslendingur er einstaklega viðkunnanlegur,“ segir Bryan sem kveður svefninn hjá sér reyndar í smárugli vegna birtunnar.

„Það var mun meira myrkur þegar ég kom í mars en núna er bjart fram á nótt, verður eiginlega aldrei alveg dimmt. Þetta er ótrúlega fallegt en mjög nýtt fyrir mér.“