„Ég held að ef maður þarf að velja milli þess að taka rafhlaupahjól eða labba þá er klárlega hollara að labba fyrir heilsu og líðan,“ segir þjálfunarsálfræðingurinn Bergsveinn Ólafsson, yfirleitt þekktur sem Beggi Ólafs, aðspurður um áhrif þessa vinsælu farartækja á lýðheilsu.

Fáum sem eiga leið í gegnum höfuðborgarsvæðið dylst sú samgöngubylting sem orðið hefur með tilkomu rafhlaupahjóla sem unnt er að leigja nær fyrirhafnarlaust. Hjólin eru þó vitanlega ekki séríslenskt fyrirbrigði.

Nokkrar deilur geisa nú um áhrif rafhlaupahjóla á lýðheilsu og efnahag í Noregi samkvæmt frétt sem birt var á norska ríkismiðlinum NRK.

Í þeirri frétt lýsir þjálfunarbloggarinn Jørgine Massa Vasstrand yfir áhyggjum af því að notkun rafhlaupahjóla dragi úr daglegri hreyfingu þeirra sem kjósa að nýta sér þau sem ferðamáta. „Sérstaklega fyrir börn sem alast upp í samfélagi þar sem ekki er gerð nein krafa til líkamsræktar“, hefur fréttin eftir henni. „Við erum ekki hönnuð fyrir svona líf.“

Í frétt NRK er haft eftir Ulrik Wisløff, prófessor í lífeðlisfræði, að notkun rafhlaupahjóla kunni að hafa sín áhrif á pyngju samfélagsins ekki síður en á lýðheilsunni. Telur hann að ef 60.000 manns sem hreyfa sig minna en mælt er með ykju hreyfingu sína um 10-15 mínútur á dag, til dæmis með hjólreiðum eða göngu, gæti það sparað samfélaginu allt að einn milljarð norskra króna á ári í læknis- og meðferðarkostnað. „Svona hjálpartæki geta leitt til aukins hreyfingarleysis hjá fólki sem þarf virkilega að vera líkamlega virkt, sérstaklega meðal kynslóðarinnar sem er að vaxa úr grasi.“

Þurfum stundum meiri óþægindi

Beggi ber blendnar tilfinningar til rafhlaupahjólanna. „Við erum stöðugt að gera lífið þægilegra svo við þurfum ekki að hafa fyrir hlutunum. Við höldum að við þurfum þægindi en stundum þurfum við í raun meiri óþægindi svo við höfum eitthvað fyrir hlutunum. Við þurfum að hreyfa okkur og við þurfum að sinna ákveðnum hlutum fyrir heilsuna og lífið,“ segir hann.

„Það er allt í lagi að nýta sér rafskúturnar sem ákveðinn ferðamáta en ef maður tekur þetta til dæmis í vinnuna eða í skólann á hverjum degi og fer tvo kílómetra hvora leiðina er maður að missa af fjögurra kílómetra göngu á hverjum degi. Á heilli viku væru þetta 28 kílómetrar sem er heilmikið, og þú getur ímyndað þér hvað þetta væri í mánuð eða ár.“

Aukin notkun rafmagnshlaupahjólanna gæti þó haft jákvæð áhrif á lýðheilsu með öðru móti. Í samtali við NRK benti Christina Moe Gjerde, forstjóri rafhjólaleigunnar Voi Norge, á að notkun þeirra komi einnig til með að draga úr bílaumferð, sem muni leiða til þess að andrúmsloft verði hreinna og að hávaði í stórborgum minnki.