Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjanesbæjar, segir það alls ekki ákjósanlegt að fólk þurfi að standa í röðum út á götu til að fá mataraðstoð. Mikilvægt sé að reynt sé koma til móts við fólk í erfiðri stöðu með öðrum úrræðum.

Anna Valdís Jónsdóttir, varaformaður og verkefnisstjóri Fjölskylduhjálpar Íslands á Suðurnesjum, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að mikil ásókn hafi verið í matarúthlutanir að undanförnu. Þá hafi þurft að vísa um 50 frá síðasta fimmtudag þegar 209 fjölskyldur og einstaklingar hafi mætt í matarúthlutun.

Hún sagði óvissu ríkja um framhaldið og gagnrýndi sveitarfélög á Suðurnesjum fyrir að koma ekki fjárhagslega til móts við samtökin.

Halldóra segir að yfirvöldum í Reykjanesbæ hafi borist erindi frá Fjölskylduhjálp en að beiðnin hafi strandað á því að frekari upplýsingar vanti frá forsvarsmönnum samtakanna.

„Það hefur ekki komið synjun frá okkur, við höfum einfaldlega ekki fengið þær upplýsingar sem við höfum kallað eftir. Þess vegna getum við ekki tekið rökstudda ákvörðun í málinu.“

Bíða enn eftir því að sjá bókhaldið

„Auðvitað vill sveitarfélagið ekki hafa fólk í löngum röðum út á götu. Við þurfum að finna leiðir til að styðja við það fólk sem þarf aðstoðina og Reykjanesbær er í alls konar aðgerðum til að reyna að gera það einfaldara fyrir fólk að sækja sér þennan stuðning.“

Halldóra segir að um eitt og hálft ár sé liðið frá því að beiðni hafi upphaflega borist frá Fjölskylduhjálp Íslands í maí 2019 og síðan þá hafi velferðarráð til að mynda reynt að fá afhent bókhald samtakanna og greiningu á því hverjir sæki sér þar aðstoð.

„Þær eru auðvitað að vinna alveg frábært starf og eru með ótrúlega flotta sjálfboðaliða,“ en Halldóra segir að velferðarnefnd hafi heimsótt starfstöð Fjölskylduhjálpar á Suðurnesjum og fengið góða kynningu á starfseminni.

„Það er frábært að sjá hvað fólk er tilbúið að leggja á sig til að aðstoða aðra en á sama tíma erum við á þeim stað að við verðum að hafa þetta gagnsæi.“

Greint var frá því um helgina að hátt í fimmtíu manns hafi verið mætt í röð fyrir utan Fjölskylduhjálp Íslands í Keflavík um hálftíma áður en úthlutun átti að hefjast á fimmtudag.
Skjáskot/RÚV

Atvinnuleysi ekki skilað sér í auknu álagi á félagsþjónustuna

Eins og tíðrætt er hefur atvinnuleysi aukist mjög mikið á Suðurnesjum eftir að heimsfaraldur kórónaveiru skall á. Í nýjustu skýrslu Vinnumálastofnunar kemur fram að heildaratvinnuleysi hafi þar mælst 18% í ágúst og hvergi verið hærra.

Þrátt fyrir þetta segir Halldóra að ekki hafi verið sýnileg aukning í ásókn í félagslegan stuðning hjá sveitarfélaginu eftir að COVID kreppan skall á. Hún segir marga nú vinna uppsagnarfrest og flesta eiga rétt á atvinnuleysisbótum.

„Við erum ekki farin að merkja sérstaka fjölgun í augnablikinu vegna COVID en gerum okkur alveg grein fyrir því að þetta getur breyst mjög hratt. Við fylgjumst mjög vel með því hversu margir detta út af bótarétti í hverjum mánuði.“

Þá segir hún að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi hjálpað til á svæðinu. Áhersla hafi verið lögð á að koma fólki í sumarstörf í sumar, reglugerðarbreyting geri fólki auðveldara að komast í atvinnu með styrk frá Vinnumálastofnun og nýlega hafi verið undirrituð viljayfirlýsing um fjölgun starfa á svæðinu.

„Tímabundið er staðan alls ekki góð en við vitum að um leið og við náum viðspyrnu þá mun birta til. Svo ég noti vinsælasta orð ársins þá erum við að sjá fordæmalausa tíma, það er ekki bjart en við vitum að það þarf lítið til þess að við náum að snúa þessu við.“

„Við erum bara eins og önnur sveitarfélagið að reyna að gera okkar besta í frekar leiðinlegum aðstæðum.“