Á þriðja hundrað manns mætti í Hafnar­fjarðar­kirkju á sam­veru- og bæna­stund vegna slyssins sem varð við Hafnar­fjarðar­höfn í gær­kvöldi. Bíll fór þá fram af höfninni en í honum voru þrír ung­lings­drengir og liggja tveir þeirra al­var­lega slasaðir á gjör­gæslu. Sá þriðji liggur á annarri deild spítalans og er líðan hans eftir atvikum.

Einn drengjanna er á grunn­­skóla­aldri en hinir tveir eru á fram­halds­­skóla­aldri. Lög­reglunni barst til­kynning um slysið um klukkan níu í gær­kvöldi. Mikill við­búnaður var á vett­vangi og voru kafarar frá sér­að­gerða­deild Land­helgis­gæslunnar kallaðir út.

Sam­veru- og bæna­stund var haldin klukkan 16 í Hafnar­fjarðar­kirkju í dag fyrir íbúa svæðisins, að­stand­endur drengjanna og skóla­fé­laga.

Jón Helgi Þórarins­son, sóknar­prestur í Hafnar­fjarðar­kirkju, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að á þriðja hundrað manns hafi mætt og fyllt kirkjuna í dag. „Þetta var nota­leg stund inn í þessar erfiðu að­stæður. Það var góður sam­hugur og hlýja og fólk tók utan um hvert annað,“ segir hann.

Í kirkjunni voru prestar og full­trúar úr á­falla­t­eymi Rauða krossins sem hægt var að ræða við. „Fólk gat kveikt þarna á kertum og svo sat það og spjallaði eftir stundina og það var mjög gott. Eftir helgi tekur svo við starf í skólunum, sér­stak­lega skólum þessara drengja, þar sem verður stuðningur fyrir krakkana,“ segir hann. „Þetta var stund sem skilaði okkur öllum hlýjum straumum og líka von.“