Umfjöllun um Klaustursupptökurnar, þar sem heyra má sex þingmenn úr Miðflokknum og Flokki fólksins tala ansi fjálglega um aðra þingmenn og fólk úr samfélaginu öllu, var birt á vef Breska ríkisútvarpsins (BBC) í dag. Málið hefur, eins og flestir vita eflaust, vakið gífurlega athygli innan landsteina en fjölmiðlar hið ytra hafa einnig sýnt því töluverðan áhuga.

Í umfjölluninni, sem er nokkuð ítarleg, segir að stór hluti Íslendinga hafi kallað eftir afsögn sexmenninganna. Vert er að benda á könnun sem Maskína lét gera á dögunum, og Fréttablaðið fjallaði um fyrr í dag, þar sem fram kemur fram að stór meirihluti Íslendinga sé á því að þingmennirnir eigi að segja af sér.

Ummæli þingmannanna um Freyju Haraldsdóttur eru tekin fyrir í umfjölluninni, sem og Facebook-færsla Freyju, þar sem hún lýsti því að afsökunarbeiðni þar sem viðkomandi reynir að útskýra og ljúga um hvað hafi átt sér stað sé ekki raunveruleg afsökunarbeiðni.

Þá ræðir blaðamaður BBC við formann Þroskahjálpar, Bryndísi Snæbjörnsdóttur, sem segir að um hafi verið að ræða hatursorðræðu gegn fötluðum. „Það var hræðilegt að þurfa að hlusta á upptökurnar þar sem þingmennirnir leika eftir dýrahljóð og gera grín að fatlaðri konu sem hefur barist svo ötullega fyrir réttindum fatlaðra,“ segir Bryndís.

Þá er vikið að þátttöku Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Miðflokksins, og skýringum hans um að hljóðin sem líkjast áttu sel, þegar nafn Freyju Haraldsdóttur bar á góma, hafi komið frá stól inni á staðnum. Fortíð hans í tengslum við Panamaskjölin er þá einnig rifjuð upp og afsökunarbeiðnin sem Miðflokkurinn sendi frá sér þar sem sagði að þingmenn hygðust læra af málinu og að umræðurnar væru óafsakanlegar.