Mustafa Barghouti, palestínskur mannréttindafrömuður, hafði sérstaklega samband við meðlimi Hatara og óskaði þeim innilega til hamingju og kunni þeim bestu þakkir fyrir að sýna Palestínu stuðning.

Matthías Tryggvi Haraldsson, annar söngvari Hatara, staðfesti þetta við útsendara Fréttablaðsins í Tel Aviv í dag. Mustafa vildi þá bjóða Hatara til palestínsku borgarinnar Ramallah þar sem hann hugðist halda þeim sérstaka veislu. Því miður komust meðlimir Hatara ekki í veisluna.

Mustafa Barghouti hefur lengi verið í fararbroddi talsmanna fyrir mannréttindum palestínsku þjóðarinnar. Hann hefur verið helsti talsmaður þess að friðsamleg barátta íbúa Gaza og Vesturbakkans sé vænlegust til árangurs. Hann var tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels árið 2010 og árið 2012 var hann heiðursgestur á 25 ára afmælissamkomu Fégagsins Ísland-Palestínu.