Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri WOW segir í uppgjörsviðtali sínu í helgarblaði Fréttablaðsins nú um helgina að hann hafi sokkið djúpt eftir fall félagsins.

„Alla leið. Eftir á að hyggja hefði ég átt að leita mér aðstoðar. Reiðin og sorgin tókust heiftarlega á í hausnum á mér. Eftir alla uppbygginguna fannst mér ég vera einskis nýtur. Mér fannst ég líka hafa brugðist svo mörgum, starfsfélögunum sem höfðu lagt nótt við dag til að byggja upp félagið með mér, öllum fjárfestunum, vinunum, fjölskyldunni og nýrri konu, henni Grímu minni sem ég hafð kynnst þegar allt lék í lyndi, en þegar þunglyndið sótti hvað harðast að mér bauð ég henni að fara frá mér, þetta væri ekki ferðalagið sem ég hafði ætlað henni með mér. Ég var andlega og líkamlega gjaldþrota.“

En Gríma hristi upp í manni sínum, kom honum í hversdagsverkin í Hvammsvík: „Hún hefur verið ótrúlega sterk og staðið við hlið mér eins og klettur. Ég er óendanlega þakklátur fyrir hennar stuðning og ást, að ekki sé talað um strákana okkar tvo sem við eigum núna saman, Jaka sem er eins og hálfs ára og mánaðargamlan bróður hans.“