Vinnu við að draga bát tökuliðs breska ríkisútvarpsins BBC var lokið um klukkan 23.30 í gærkvöldi. Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að skipið Gísli Jóns hafi dregið bátinn inn til hafnar á Ísafirði. Ekki urðu nein slys á fólki og samstarf gekk vel á milli allra aðila sem tóku þátt í björgunaraðgerðunum.

Þegar báturinn var kominn í höfn tóku við honum átta sjálfboðaliðar með slöngubát til að aðstoða við frágang og vera til taks ef þess þyrfti.

Landhelgisgæslan og Slysavarnafélagið Landsbjörg komu tökuliði breska ríkisútvarpsins BBC til bjargar eftir að bátur þeirra varð vélarvana og fór að leka um klukkan fjögur í gær.

Fimm starfsmenn BBC voru um borð í bátnum ásamt tveimur í áhöfn og lentu þau í klandri í nágrenni Hlöðuvíkur á Hornströndum. Greint var frá því í gær að þeim til mikillar lukku hafi verið dælur um borð sem hafi náð að halda sjó frá bátnum. Um klukkan fimm kom fiskibáturinn Otur á svæðið og kom taug yfir í bátinn.

Laust fyrir klukkan 18 kom Gísli Jóns að bátnum og tók þá við af nærstöddu fiskiskip sem hafði hafið aðstoð. Þegar að þyrla Landhelgisgæslunnar TF-EIR sem líka kom á vettvang hafði lokið við að setja dælu um borð í lekt farþegaskipið og tekið alla farþega þess um borð fóru tveir menn úr björgunarskipunum um borð í skipið til að vera áhöfn þess til aðstoðar.