Nokkrir smábátar hafa losnað frá bryggjunni í Vestmannaeyjahöfn og einn bátur hefur losnað á Suðurnesjum vegna óveðursins. Björgunarsveitir hafa fengið tilkynningar um ástandið og eru mættar niður á hafnirnar.
Flest útköll björgunarsveita vegna óveðursins hafa verið í Eyjum þar sem gríðarlegt fárviðri er nú. Vindur þar hefur náð í yfir 50 metrum á sekúndu en hann hefur aðeins gengið niður. Enn koma þó reglulega hvassar vindhviður sem ná 50 metrunum.
Háflóð er nú í Vestmannaeyjum og losnuðu bátarnir í því. Útkall vegna þeirra barst rétt fyrir klukkan 09:30 í dag. Ekki er ljóst hve margir bátar losnuðu frá bryggjunni. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir alla tiltæka björgunarsveitarmenn vera komna niður á höfn til að meta ástandið.
Hann segir enn ekki ljóst hvort aðstæður leyfi þeim að gera tilraun til að sigla eftir bátunum og festa þá aftur. Tilkynning um bátinn á Suðurnesjum barst um svipað leyti og er ljóst að aðeins einn bátur hefur losnað þar. Einnig er verið að meta aðstæður við höfnina þar.