Heiðu Björgu Hilmisdóttur, varaformanni Samfylkingarinnar, hefur snúist hugur um framboð til þings, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Þau boð munu hafa borist til uppstillingarnefndar flokksins í Reykjavík, að hún bjóði nú krafta sína fram, eftir að hafa aftekið þingframboð áður og beðist undan þátttöku í skoðanakönnun um frambjóðendur, meðal flokksmanna.

„Ég hef fengið mikið af áskorunum um að bjóða mig fram. Ég útiloka ekki neitt,“ segir Heiða Björg, en eiginmaður hennar, Hrannar B. Arnarson, vék úr uppstillingarnefnd fljótlega eftir að hún tók til starfa.

Nefndin stendur hins vegar frammi fyrir þeim vanda að sjö af tíu vinsælustu frambjóðendum samkvæmt fyrrnefndri könnun eru konur. Hörgull er hins vegar á karlmönnum. Blaðamaðurinn Jóhann Páll Jóhannsson var einn karla meðal efstu fimm og aðeins tveir til viðbótar eru meðal tíu vinsælustu frambjóðenda; Ágúst Ólafur Ágústsson og Guðmundur Ingi Þóroddsson, en Ágúst hefur þegar hafnað boði nefndar um þriðja sæti.

Helga Vala Helgadóttir og Kristrún Frostadóttir þykja líklegastar til að leiða flokkinn í Reykjavík. Óvíst er hvernig fer með framboð Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur sem gefur nú kost á sér í kraganum.