Norska lögreglan greindi frá því í dag að Hagen fjölskyldan hafi aftur heyrt frá fólkinu sem segist hafa numið Anne-Elisabeth á brott í október á síðasta ári. Lögreglan hélt blaðamannafund í dag þar sem greint var frá gangi rannsóknar á hvarfi Anne-Elisabeth. Greint er frá á NRK.

„Það bárust ný skila­boð. Þeim er beint til fjöl­skyldunnar og hafa verið send til lög­manns og lög­reglunnar,“ sagði rann­sóknar­lög­reglu­maðurinn Tommy Brøske á blaða­manna­fundinum. 

Lög­reglan telur að skila­boðin hafi borist frá sömu aðilum og hafi sent fyrri skila­boð.

Greint var frá því seint í janúar að þann 16. Janúar hafi fjöl­skyldunni borist skila­boð frá mann­ræningjunum. Lög­maður fjöl­skyldunnar sagði þá að fjöl­skyldan vildi halda sam­skiptum opnum við mann­ræningjana og var greint frá því í dag að tekist hefði að finna leið til að halda sam­skiptum opnum sem hentaði báðum aðilum.

Lög­reglan stað­festi að skila­boðin hafi borist með annarri leið en áður en vildi ekki greina frá því hvaða sam­skipta­leið hafi verið valin. Lög­reglan í­trekaði þó að þrátt fyrir að sam­skipti hafi átt sér stað ættu þau ekki í form­legum samninga­við­ræðum við mann­ræningjana.

Lög­reglan telur það já­kvætt að ræningjarnir hafi haft sam­band en segja þó fjöl­skylduna eða þeim ekki hafa borist nein sönnunar­gögn um það hvort Anne-Elisa­beth sé enn á lífi.

Hvarf í október á síðasta ári

Anne-Elisabeth Hagen hvarf sporlaust af heimili sínu þann 31. október síðastliðinn. Lögreglan telur að hún hafi verið numin á brott af mannræningjum af heimili sínu í Fjellhamar í Noregi. Mikil leynd var yfir rannsókninni fyrst um sinn. Í gær fjallaði norska ríkisútvarpið ítarlega um hvarf konunnar.

Sjá einnig: Ná­grannar furðuðu sig á kveiktum ljósum

Á annað þúsund tilkynninga 

Anne-Elisabeth er gift fjárfestinum Tom Hagen. Hann er í hópi ríkustu Norðmannanna og vermir þar 172. sæti listans.  Lögreglunni hafa borist á annað þúsund ábendingar um hvarf hennar sem hafa snúist um mögulega felustaði, grunsamlegt fólk og bíla.

Sjá einnig: Þrír mánuðir frá því að Anne-Elisabeth hvarf