Norska lögreglan greindi frá því í dag að Hagen fjölskyldan hafi aftur heyrt frá fólkinu sem segist hafa numið Anne-Elisabeth á brott í október á síðasta ári. Lögreglan hélt blaðamannafund í dag þar sem greint var frá gangi rannsóknar á hvarfi Anne-Elisabeth. Greint er frá á NRK.
„Það bárust ný skilaboð. Þeim er beint til fjölskyldunnar og hafa verið send til lögmanns og lögreglunnar,“ sagði rannsóknarlögreglumaðurinn Tommy Brøske á blaðamannafundinum.
Lögreglan telur að skilaboðin hafi borist frá sömu aðilum og hafi sent fyrri skilaboð.
Greint var frá því seint í janúar að þann 16. Janúar hafi fjölskyldunni borist skilaboð frá mannræningjunum. Lögmaður fjölskyldunnar sagði þá að fjölskyldan vildi halda samskiptum opnum við mannræningjana og var greint frá því í dag að tekist hefði að finna leið til að halda samskiptum opnum sem hentaði báðum aðilum.
Lögreglan staðfesti að skilaboðin hafi borist með annarri leið en áður en vildi ekki greina frá því hvaða samskiptaleið hafi verið valin. Lögreglan ítrekaði þó að þrátt fyrir að samskipti hafi átt sér stað ættu þau ekki í formlegum samningaviðræðum við mannræningjana.
Lögreglan telur það jákvætt að ræningjarnir hafi haft samband en segja þó fjölskylduna eða þeim ekki hafa borist nein sönnunargögn um það hvort Anne-Elisabeth sé enn á lífi.

Hvarf í október á síðasta ári
Anne-Elisabeth Hagen hvarf sporlaust af heimili sínu þann 31. október síðastliðinn. Lögreglan telur að hún hafi verið numin á brott af mannræningjum af heimili sínu í Fjellhamar í Noregi. Mikil leynd var yfir rannsókninni fyrst um sinn. Í gær fjallaði norska ríkisútvarpið ítarlega um hvarf konunnar.
Sjá einnig: Nágrannar furðuðu sig á kveiktum ljósum
Á annað þúsund tilkynninga
Anne-Elisabeth er gift fjárfestinum Tom Hagen. Hann er í hópi ríkustu Norðmannanna og vermir þar 172. sæti listans. Lögreglunni hafa borist á annað þúsund ábendingar um hvarf hennar sem hafa snúist um mögulega felustaði, grunsamlegt fólk og bíla.
Sjá einnig: Þrír mánuðir frá því að Anne-Elisabeth hvarf
Athugasemdir