William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, lætur af embætti í næstu viku en Donald Trump forseti Bandaríkjanna greindi frá þessu á Twitter fyrir stundu. Barr hefur gegnt embættinu í tvö ár en hann tók við því af Jeff Sessions í ársbyrjun 2019. Jeff Rosen, aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna, mun vera starfandi dómsmálaráðherra þegar Barr lætur af störfum.

Fjölmiðlar vestanhafs, til að mynda CNN og New York Times, greindu frá því fyrir helgi að Trump hafi skoðað þann möguleika að láta Barr fjúka áður en kjörtímabili Trumps lýkur eftir rúman mánuð. Ástæðan fyrir reiði Trumps var sögð vera sú að Barr væri að íhuga að segja af sér áður en nýr forseti tekur við embætti.

Hlýtt var milli Barr og Trumps í upphafi en stirt hefur verið þeirra á milli í nokkra mánuði. Brestir voru komnir í samband þeirra síðastliðinn febrúar eftir að Trump tjáði sig ítrekað um viðkvæm dómsmál á opinberum vettvangi.

Barr var þá sagður alvarlega íhuga að segja af sér en hann sagðist ekki geta unnið sína vinnu ef Trump myndi halda áfram að tjá sig um viðkvæm mál. Eftir forsetakosningarnar varð samband þeirra enn stirðara en Barr lét hafa eftir sér í síðustu viku að hann sæi engin merki um víðtækt kosningasvindl í nýafstöðnum forsetakosningum, líkt og Trump hafði ítrekað haldið fram.

Trump segist hafa átt fund um starfslokin með Barr í Hvíta húsinu í dag en í tísti hans segir að samband þeirra hafi verið gott síðastliðin tvö ár. Forsetinn birti með tísti sínu bréf frá Barr þar sem ráðherrann sagði það hafa verið heiður að þjóna bandarísku þjóðinni og hrósaði forsetanum í hástert. Þá greindi hann frá því að hann myndi láta af störfum þann 23. desember næstkomandi.

Kjörmenn allra ríkja Bandaríkjanna, og Washington, D.C., komu saman í hverju ríki fyrir sig í dag til að greiða atkvæði sín til næsta forseta og varaforseta Bandaríkjanna. Nýr forseti tekur síðan við embætti þann 20. janúar og er nánast öruggt að Joe Biden verði þar kjörinn næsti forseti Bandaríkjanna.

Fréttin hefur verið uppfærð.