Valgerður Lísa Sigurðardóttir sérfræðiljósmóðir á Landspítalanum segir verulega þörf á hentugu úrræði fyrir þennan hóp kvenna. „Eitthvert skjólshús fyrir þær meðan þær eru að ná tökum á tilverunni í bataferlinu og með lítið barn. Flestar innan þessa hóps hafa töluverða þörf fyrir stuðning, bæði á meðgöngu og eftir fæðingu. Þarfir kvenna eru þó mismunandi, sumar hafa aðgang að stuðningsneti í kringum sig á meðan aðrar hafa meiri þörf fyrir samfélagslegan stuðning,“ segir hún.
Valgerður segir barnshafandi konum með fíknivanda vera í flestum tilvikum vísað í meðgönguvernd á Landspítala, þar sem konum með alls konar áhættuþætti á meðgöngu er veitt meðgönguvernd.
„Sérhæfðar ljósmæður bjóða konunni viðtal, gera heilsufarsmat, meta þörf hennar fyrir þjónustu í barneignarferlinu, veita fræðslu og ráðgjöf og hvetja hana til að þiggja meðferð vegna síns fíknivanda. Það er þétt utanumhald og stuðningur á meðgöngunni. Aðrir fagaðilar koma þar einnig að, svo sem félagsráðgjafar og fagaðilar með sérhæfingu í fíknimeðferð. Bæði SÁÁ og fíknigeðdeild Landspítala veita barnshafandi konum forgang í meðferð, “ segir Valgerður.
Urðarbrunnur fjársvelta um mánaðamótin
Elísabet Ósk Vigfúsdóttir ljósmóðir og forstöðukona Urðarbrunns segir úrræðið fjársvelta og þurfi að loka um mánaðamótin ef hún fái ekki stuðning frá ríkinu eða sveitarfélögunum.
„Við getum tekið við þremur konum í einu og er markmið okkar að styðja, vernda og undirbúa verðandi foreldra og mæður til að takast á við nýtt hlutverk að eignast barn, veita þeim viðeigandi stuðning, hvatningu og fræðslu bæði fyrir og eftir fæðingu barnsins með því að leiðarljósi að auka hæfni þeirra og getu við umönnun og tengslamyndun við nýburann,“ segir Elísabet.
Hjá okkur er fjölskyldunum eða mæðrum er boðin sólarhringsvistun eða lengri tíma og er hugmyndin að þjónustunni byggð á samskonar þjónustu sem er á vegum ríkisins í Norðurlöndunum, en Urðarbrunnur er eina slíka úrræðið hérlendis.
„Ég hef verið að greiða þetta sjálf úr eigin vasa til að vera til staðar fyrir þennan hóp. Sveitarfélögin segjast ekki geta fjármagnað þetta og ég neyðist þá til að loka um mánaðamótin,“ segir Elísabet.
Hún segir kerfið vera að seinka vandanum með þessu úrræðaleysi. „Ef ekkert er gert er hætta á því að konurnar fari í sama far og börnin mögulega send í fóstur. Konurnar vilja ná bata, vera til staðar fyrir börnin sín og koma undir sig fótfestu í lífinu,“ segir Elísabet.
Vöntun á öruggu úrræði
Tuttugu og fjögurra ára ófrísk kona komin 39 vikur á leið með sitt fyrsta barn, snéri blaðinu við eftir margra ára neyslu bjó á götunni þar til hún komst að því að hún væri barnshafandi.
„Ég var á neyslu í mörg ár, frá því að ég var unglingur og kom af götunni þegar ég komst að því að ég var ófrísk. Ég er búin að vera edrú í átta mánuði núna og lét renna af mér um leið og ég komst af því að ég væri ófrísk. Ég fór inn á Vog og Vík ásamt því að hafa verið í hálft ár á áfangaheimilinu Dyngjunni, það var ótrúlega erfiður og krefjandi tími,“ segir hún og bætir við að áfangaheimili virðist vera eini kosturinn, eða vera á sófanum hjá vinkonu.
„Áfangaheimili er ekki staður fyrir ófrískar konur. Þær sem dvelja þar eru með fjölþættan geðrænan vanda og eru ýmist í vímuefnaneyslu. Maður er alltaf óöruggur," segir hún og bætir við að hún viti um konur sem hafa farið af áfangaheimilum vegna þess.
Fá úthlutað íbúð á fæðingardeildinni
Félagsþjónustan hafi lofað henni íbúð sem hún fékk úthlutað tveimur vikum fyrir settan dag. „Ég hef þurft að flytja þrisvar sinnum á meðgöngunni, það var alltaf verið að lofa mér íbúð. Ef ég hefði farið fyrr af stað veit ég ekki hvert ég hefði farið,“ segir hún.
Margar konur hafi fengið íbúð afhenta á settum fæðingardegi barnsins eða þegar þær væru komnar upp á fæðingardeild. Hún segir það þurfi utanumhald með lítið barn og á þessum viðkvæmu tímum í lífi kvenna og barnanna, sér í lagi þegar þær hafa oft á tíðum lítið eða ekkert bakland.
Hún segir það megi ekki líta á konur í þessum aðstæðum sem annars flokks, „Það langar öllum að hugsa um barnið sitt, en það hafa ekki allir sömu tækifæri,“ segir hún og bætir við að hún sé heppin með gott bakland, en það sé ekki raunin hjá öllum og ítrekar að það vanti úrræði fyrir konur og börn þeirra líkt og Urðarbrunn þar sem konur geta leitað sér húsaskjól og fundið fyrir öryggi.
Hægt er að leggja málefninu lið með því að styrkja Urðarbrunn:
Banki 0370-26-710324 Kennitala 710321-0430