Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli á morgun klukkan 14:00 til þess að mótmæla aðgerðum lögreglu og ríkisstjórnarinnar gegn flóttamönnum á Íslandi.
Mótmælin eru undir myllumerkinu #ekkiímínunafni en fjöldamargir aðilar hafa birt færslur undir merkinu í dag til þess að mótmæla brottvísunum fólks sem leitast eftir alþjóðlegri vernd hér á landi.
En eins og kunnugt er orðið vísuðu stjórnvöld 15 manns frá Íslandi í vikunni sem leið en meðal þeirra var maður í hjólastól, ungar stúlkur á skólaaldri og 18 ára drengur sem fór einn til Grikklands.
Meðal mælenda á mótmælunum verður söngkonan Margrét Kristín Blöndal sem er betur þekkt sem Magga Stína en hún spyr hvort fólk geri sér almennt grein fyrir þeim aðstæðum sem horfa við fólki sem sent er til Grikklands.
„Fylgdarlausa barninu sem var hent úr landi, veistu hvar það “svaf” síðustu nótt ? Á götunni í Grikklandi! Veistu hvar það “svaf”, þar síðustu nótt ? Á götunni í Grikklandi. Í boði Jóns Gunnarssonar og allrar ríkisstjórnarinnar sem svaf öll vært á sínu græna eyra, pollróleg í hlýju góðu rúmunum sínum, örugg um sig og sína,“
segir Magga Stína sem telur að nú þurfi fólk að snarstoppa og taka afstöðu til mannréttinda sem aldrei fyrr.
„Við sem erum ekki hluti af sértrúarsöfnuði Valhallar þurfum að hætta þessari fáránlegu forundran alltaf hreint! Hætta að spyrja okkur heimskulegra spurninga um “hvernig svona hlutir geti gerst í siðmenntuðu samfélagi..?,” segir hún.
„Þeir gerast af því stjórnvöld hafa ákveðið það. Þetta er ekkert flókið. Þeir gerast ítrekað af því við leyfum þeim að gerast án þess að bregðast við og höldum svo að við getum hvítþvegið okkur með svona spurningavæli og þvættingi! Ég tala sérstaklega til þeirra sem telja sig réttsýna og diplómatískt þenkjandi. Þar er nú fólgin mesta hættan. það þarf enginn að vera hissa á því hvernig ofbeldismenningin er dýrkuð og uppklöppuð í Sjálfstæðisflokknum en við getum ekki eytt tímanum í að stofna best„umannanefnd” til að skoða þann þátt betur. Nú skulum við bara standa í lappirnar og spara okkur allar þessar spurningar því við erum komin að tímamótum í okkar samfélagi,“ segir Magga Stína.
„Dómsmálaráðuneytið hefur nú ítrekað það að farið hafi verið að lögum“ segir Magga Stína en Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur sagt að hann telji að brottvísun fólksins hafi verið framkvæmd með fullkomlega eðlilegum hætti. “Hann lýgur því," segir Magga Stína og bætir við
"hvert mannsbarn sér að brotið var á mannréttindum. Það má ekki samkvæmt lögum brjóta á mannréttindum annarrar manneskju, ergo ráðherrann lýgur. Þetta er ekkert flókið."
„Ég skil fullkomlega að fólk vilji bara alls ekki trúa því að yfirvaldið fari ekki að lögum en það er engu að síður staðreynd. Við verðum, hvort sem okkur líkar betur eða verr að horfast í augu við það. Uppgangur fasisma og rasisma hér á landi er staðreynd hér sem og annarsstaðar í Evrópu,“ og gegn því þarf að berjast með kjafti og klóm. Það er ekki nema von að fólk ruglist í ríminu þegar ráðamenn sem fólk treystir til allra góðra verka og kosið hefur verið í góðri trú um að það vinni að bættum heimi “fokkar” í huga kjósenda sinna með því að væla í hneykslunartón um að skoða þurfi ástæður aukinnar ofbeldismenningar meðal ungs fólks og nokkrum dögum síðar stendur það sjálft fyrir ofbeldi gagnvart saklausu fólki. Hvernig á maður að fá það til að ríma?” Spyr Magga Stína að lokum.
Aðrir mælendur sem koma fram á Austurvelli á morgun verður Sigrún Ásta Gunnarsdóttir sem er nemandi við FÁ en hún er góð vinkona stúlknanna sem handteknar voru og færðar úr landi. Aðrir mælendur verða Anna Lára Steindal frá Þroskahjálp ásamt Illuga Jökulssyni rithöfundi og Braga Pál Sigurðsyni blaðamanni og rithöfundi. Mótmælin munu hefjast klukkan 14:00 eins og áður segi.