Fimm ára drengurinn, sem kastað var niður af þriðju hæð í verslunar­mið­stöðinni Mall of America í Bloomington í Min­nesota, hefur sýnt bata­merki. Frá þessu greinir fjöl­skylda drengsins, sem heitir Landen, á GoFundMe-söfnunar­síðu í hans nafni.

Emmanuel Aranda, 24 ára gamall maður, var hand­tekinn fyrr í mánuðinum fyrir að hafa kastað honum en hann hefur verið á­kærður fyrir til­raun til mann­dráps. Hann hafði áður verið settur í bann frá verslunar­mið­stöðinni og hefur sömu­leiðis glímt við reiðistjórnunarvanda.

Að sögn lög­reglunnar hafði Aranda ætlað sér að drepa mann í verslunar­mið­stöðinni degi fyrr en að lokum hörfað. Hann hafi verið í miklu upp­námi og mætt aftur daginn eftir. Þar sá hann drenginn og móður hans. Að sögn gekk hann upp að mæðginunum, lyfti Landen upp og kastaði honum yfir hand­riðið.

„Krafta­verka­barnið okkar Landen hefur sýnt raun­veru­leg merki um bata. Nýjar prófanir hafa reynst já­kvæðar en hann er enn í strangri um­önnun og vegurinn fram­undan er langur,“ segir í færslu fjöl­skyldunnar sem þakkar Guði al­máttugum.

Frétt CNN um málið.