Foreldrar barns sem kvartað hafa til menntamálaráðuneytisins vegna þess að barnið þeirra var innilokað og frelsissvipt segja að þau skilji ekki hvernig sé hægt að réttlæta það að setja barn eitt inn í skólastofu og loka svo hurðinni.
„Okkur finnst það óskiljanlegt hvernig svona getur gerst. Starfsfólkið hefur lært að beita líkamlegu inngripi enda er um að ræða barn sem er á rófinu og fer reglulega í „meltdown“. Þarna voru nokkrir starfsmenn. Hvernig er hægt að réttlæta það að setja barn inn í herbergi og loka því?” spyr móðir barnsins.
Hún segir að þau viti ekki nákvæmlega hversu oft barnið hafi verið innilokað en þau hafi staðfest tvö skipti en það sjálft talað um þrjú skipti. Vitað sé til þess að í eitt skipti hafi það verið innilokað í 25 mínútur.
„Það er langur tími hjá litlu barni,“ segir móðir barnsins.
Hún segir að það hafi orðið, við þessar aðstæður sturlað af hræðslu og að þegar hún kom á staðinn til að róa það niður hafi herbergið verið þakið plast- og glerbrotum.
„Barnið hefur glímt við sjálfsvígshugsanir og maður veit aldrei hvað barn í svona ástandi gerir. Þarna verður það sturlað af hræðslu.“
Barnið var síðast innilokað þann 22. september og hefur ekki farið í skólann síðan í september.
„Það var þá sem ég sá að ég get ekki treyst þeim fyrir barninu. Starfsfólkið hefur ekki þá fagþekkingu sem þarf en samt á barnið rétt á að geta mætt í sinn hverfisskóla og að komið sé til móts við þarfir þess þar. Ástandið er óskiljanlegt, alvarlegt og hreint út sagt sorglegt.“
Bæði notað til að læra og róa
Fjallað var um málið í Fréttablaðinu í dag þar sem kom fram að auk þess að barnið hafi verið lokað inni var það sett í svokallað „gult herbergi“ í skólanum, með starfsmanni. Samkvæmt verklagi um gula herbergið á nemandi ekki að fara í list- eða verkgreinar, frímínútur eða íþróttir á meðan hann dvelur þar. Hann fær ekki að borða með samnemendum sínum. Samkvæmt reglunum á alltaf að vera starfsmaður hjá nemandanum, en skýrt er í reglunum að hann á ekki að spjalla við nemanda og á að „sýnast upptekinn“.
„Við þvertókum auðvitað fyrir að þessu verklagi væri beitt gagnvart barninu okkar. En gula herbergið var svo notað bæði til þess að láta barnið læra í næði og einnig átti að fara með það þangað ef það var orðið æst. Aftur á móti virðist sem engu sérstöku verklagi hafi verið fylgt þegar barnið var lokað eitt inni. Það gerðist bara í einhverri skólastofu.“
Umboðsmaður Alþingis óskaði upplýsinga frá sautján sveitarfélögum í fyrra um aðskilnað barna frá samnemendum sínum og vistun þeirra í sérstökum rýmum. Í kjölfar svara var ákveðið að aðhafast ekkert en eftir að hafa fengið ábendingar frá foreldrum, auk umfjöllunar um málið í fjölmiðlum, hefur umboðsmaður tekið málið upp að nýju. Samkvæmt upplýsingum frá embættinu hafa þeim borist þónokkrar ábendingar.