For­eldrar barns sem kvartað hafa til mennta­mála­ráðu­neytisins vegna þess að barnið þeirra var inni­lokað og frelsis­svipt segja að þau skilji ekki hvernig sé hægt að rétt­læta það að setja barn eitt inn í skóla­stofu og loka svo hurðinni.

„Okkur finnst það ó­skiljan­legt hvernig svona getur gerst. Starfs­fólkið hefur lært að beita líkam­legu inn­gripi enda er um að ræða barn sem er á rófinu og fer reglu­lega í „melt­down“. Þarna voru nokkrir starfs­menn. Hvernig er hægt að rétt­læta það að setja barn inn í her­bergi og loka því?” spyr móðir barnsins.

Hún segir að þau viti ekki ná­kvæm­lega hversu oft barnið hafi verið inni­lokað en þau hafi stað­fest tvö skipti en það sjálft talað um þrjú skipti. Vitað sé til þess að í eitt skipti hafi það verið inni­lokað í 25 mínútur.

„Það er langur tími hjá litlu barni,“ segir móðir barnsins.

Hún segir að það hafi orðið, við þessar að­stæður sturlað af hræðslu og að þegar hún kom á staðinn til að róa það niður hafi her­bergið verið þakið plast- og gler­brotum.

„Barnið hefur glímt við sjálfs­vígs­hugsanir og maður veit aldrei hvað barn í svona á­standi gerir. Þarna verður það sturlað af hræðslu.“

Barnið var síðast inni­lokað þann 22. septem­ber og hefur ekki farið í skólann síðan í septem­ber.

„Það var þá sem ég sá að ég get ekki treyst þeim fyrir barninu. Starfs­fólkið hefur ekki þá fag­þekkingu sem þarf en samt á barnið rétt á að geta mætt í sinn hverfis­skóla og að komið sé til móts við þarfir þess þar. Á­standið er ó­skiljan­legt, al­var­legt og hreint út sagt sorg­legt.“

Bæði notað til að læra og róa

Fjallað var um málið í Frétta­blaðinu í dag þar sem kom fram að auk þess að barnið hafi verið lokað inni var það sett í svo­kallað „gult her­bergi“ í skólanum, með starfs­manni. Sam­kvæmt verk­lagi um gula her­bergið á nemandi ekki að fara í list- eða verk­greinar, frí­mínútur eða í­þróttir á meðan hann dvelur þar. Hann fær ekki að borða með sam­nem­endum sínum. Sam­kvæmt reglunum á alltaf að vera starfs­maður hjá nemandanum, en skýrt er í reglunum að hann á ekki að spjalla við nemanda og á að „sýnast upp­tekinn“.

„Við þver­tókum auð­vitað fyrir að þessu verk­lagi væri beitt gagn­vart barninu okkar. En gula her­bergið var svo notað bæði til þess að láta barnið læra í næði og einnig átti að fara með það þangað ef það var orðið æst. Aftur á móti virðist sem engu sér­stöku verk­lagi hafi verið fylgt þegar barnið var lokað eitt inni. Það gerðist bara í ein­hverri skóla­stofu.“

Um­boðs­maður Al­þingis óskaði upp­lýsinga frá sau­tján sveitar­fé­lögum í fyrra um að­skilnað barna frá sam­nem­endum sínum og vistun þeirra í sér­stökum rýmum. Í kjöl­far svara var á­kveðið að að­hafast ekkert en eftir að hafa fengið á­bendingar frá for­eldrum, auk um­fjöllunar um málið í fjöl­miðlum, hefur um­boðs­maður tekið málið upp að nýju. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá em­bættinu hafa þeim borist þó­nokkrar á­bendingar.