Ráðast þarf í grundvallarbreytingar á móttöku og nálgun íslenskra stjórnvalda á umsóknum fylgdarlausra barna um alþjóðlega vernd hér á landi. Þetta kemur fram í samantekt dómsmálaráðuneytisins um lagaumhverfi og málsmeðferð í málum barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi. Lögð er sérstök áhersla á breytingar sem gera þurfi á aldursgreiningum og ákvörðunartöku um bestu hagsmuni barna.

Í samantektinni er lagt til að hlutverk barnaverndaryfirvalda í málaflokknum verði aukið og barnaverndaryfirvöldum verði meðal annars falið að taka við aldursgreiningum.

Byggja þurfi á heildstæðu mati þegar aldur sé fundinn og túlka allan vafa umsækjanda í hag. Þá megi heldur ekki ganga lengra í rannsóknaraðgerðum en nauðsyn beri og áhersla lögð á að rannsóknin fari fram með mannúðlegum hætti og gætt að réttindum og reisn umsækjandans. Líkamsrannsókn skuli einungis beitt ef vægari leiðir hafa ekki dugað til og réttur til að neita að gangast undir slíka rannsókn skuli virtur.

Stærsta breytingin sem lögð er til í samantektinni er að barnaverndaryfirvöldum verði falið aukið hlutverk við móttöku og meðferð mála fylgdarlausra barna og litið verði á mál þeirra sem barnaverndarmál. Stuðst er við fyrirkomulag sem viðhaft er í Írlandi og Evrópuráðið bendir á sem fyrirmynd um þjónustu við fylgdarlaus börn.

Háskóli Íslands ákvað nýverið að endurnýja ekki þjónustusamning við Útlendingastofnun um tanngreiningar sem unnar voru í háskólanum. Í bókun háskólaráðs um ákvörðunina segir meðal annars að Háskólinn hafi komið athugasemdum á framfæri um framkvæmd aldursgreininga meðal annars með hliðsjón af réttindum barna sem kveði meðal annars á um að ríki skuli notast við fjöl­þætt mat á líkam­legum og and­legum þroska barna, sem fram­kvæmt er af barna­læknum og öðrum sér­fræðingum í þroska barna og forðast klínískar aldurs­greiningar á tönnum.

Ekki hafi verið brugðist við athugasemdum háskólans um breytt verklag og heildstæðara mati á aldri umsækjenda. Því hafi skólinn ákveðið að endurnýja ekki samning við stofnunina.

Barni vísað beint til barnaverndaryfirvalda

Lagt er til að fylgdarlaust barn sem gefur sig fram við Útlendingastofnun eða lögreglu verði strax tekið í þjónustu barnaverndaryfirvalda, sem hafi einnig ákvörðun um aldur barns á sínu borði. Hjá barnaverndaryfirvöldum starfi sérfræðingar í málefnum barna og það kerfi því betur til þess fallið að þróa aðferðir við aldursgreiningu og taka ákvörðun um aldur sem geti stuðst við læknisfræðilegar rannsóknir og mat á þroska. Barnaverndaryfirvöldum verði þó heimilt, í því skyni að bera kennsl á barn, að leita upplýsinga um barnið í fingrafaragrunnum sem útlendingastofnun hefur aðgang að.

Sé niðurstaða aldursgreiningar sú að viðkomandi einstaklingur sé í rauninni fullorðinn, taki útlendingastofnun og lögregla aftur við viðkomandi og halda áfram með skráningu og vinnslu umsóknar um alþjóðlega vernd.

Ef greining staðfestir að um barn sé að ræða haldi barnaverndaryfirvöld hins vegar áfram að þjónusta viðkomandi á grundvelli barnaverndarlaga.

Víðtækt mat á hagsmunum barns

Þá er lagt til að ekki verði tekin ákvörðun um umsókn um áframhaldandi dvöl á landinu fyrr en að loknu mati barnaverndaryfirvalda á þvi hvort slík umsókn samræmist bestu hagsmunum barnsins. Meta þurfi til dæmist hvort það samræmist bestu hagsmunum barnsins að sameina það fjölskyldu sinni í heimalandi eða því ríki sem hún kann að vera stödd.  Horfa beri til vilja barnsins í þessum efnum í samræmi við aldur þess og þroska en með þessu sé tryggt að barnið geti sameinast fjölskyldu sinni, sé það talið í þágu barnsins, án þess að málsmeðferð útlendingastofnunar tefji það ferli.

Telji barnaverndaryfirvöld hagsmunum barnsins best komið með heimild til áframhaldandi dvöl hér á landi, þarf að meta hvaða grundvöllur dvalar þjóni því best. Barnaverndaryfirvöld geti tekið forsjá barnsins yfir eigi það hvorki foreldra né ættingja í heimaríki eða barnaverndaryfirvöld þess ríkis séu ófær um að þjónusta barnið með fullnægjandi hætti.

Umsókn um dvalarleyfi verði þá unnin í samráði við þá barnaverndarnefnd sem hafi forsjá barnsins.

Stuttlega er vikið að því að unnt verði að koma á skjótvirkri kæruleið sé talin þörf á möguleika ti lað kæra eða endurskoða niðurstöðu um aldur.

Þá segir í niðurlagi samantektarinnar að sú breyting sem lögð er til leysi ekki allan vanda barna á flótta sem komi hingað til lands. Félagsmálayfirvöld þurfi áfram að vinna að því að bæta aðstoð og þjónustu við börn sem sækja um alþjóðlega vernd, bæði varðandi félagslega aðstoð og skólaþjónustu.

Útlendingastofnun bæti upplýsingagjöf til barna

Auk þessarar tillögu er bent á nokkra þætti sem betur megi fara í þjónustu við börn á flótta. Vísað er til athugasemda við upplýsingamiðlun Útlendingastofnunar til barna sem sækja um alþjóðlega vernd. Hún taki ekki tillit til aldurs og þroska barns hverju sinni.

Er því beint til Útlendingastofnunar að tryggja að upplýsingar til barna sem sækja um vernd hér á landi séu þeim aðgengilegar og auðskiljanlegar, sérstaklega þegar um fylgdarlaus börn sé að ræða. Fullnægjandi upplýsingagjöf til barns sé forsenda þess að barn geti myndað sér skoðun á málinu og komið henni á framfæri við stjórnvöld.

Setja þurfi reglur um viðtöl við börn

Vísað er til þeirrar nýbreytni hjá Útlendingastofnun að bjóða öllum börnum í viðtal hafi þau þroska, getu og vilja til þess. Ráðuneytið telur nauðsynlegt að skýrar reglur þurfi að gilda um viðtöl við börn í leit að alþjóðlegri vernd.

Ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um slík viðtöl og er lagt til að vinna við reglur um þetta efni verði sett í gang.

Börnum tryggð örugg búseta

Fram kemur í samantektinni að fylgdarlaus börn á aldrinum 15 til 17 ára fari sjaldan í fóstur eða inn á heimili á vegum barnaverndaryfirvalda heldur búi þau flest í búsetuúrræðum Útlendingastofnunar.

Skylda barnaverndaryfirvalda að tryggja hagsmunagæslu og örugga búsetu fyrir fylgdarlaus börn er áréttuð í samantektinni. Heimild í lögum til að barn dvelji í úrræðum á vegum Útlendingastofnunar frá 15 ára aldri sé einungis undanþáguheimild þar til viðeigandi úrræði finnst.

Er því beint til félagsmálaráðuneytisins að tryggja fylgdarlausum börnum á þessum aldri búsetu á heimili reknu af barnaverndaryfirvöldum.