Forstjóri Barnaverndarstofu, Heiða Björg Pálmadóttir, hefur formlega beðið konurnar sem voru vistaðar á Laugalandi á árunum 1997 til 2007 afsökunar fyrir hönd Barnaverndarstofu. Bréfið birtist á vefsíðu stofnunarinnar þann 5. mars síðastliðinn.

Sex konur stigu fram í Stundinni í janúar og greindu frá andlegu og líkamlegu ofbeldi sem þær sögðust hafa orðið fyrir á meðferðarheimilinu. Sökuðu þær fyrrnefndan forstöðumann, Ingjald Arnþórsson, um að hafa beitt þær harðræði en hann hefur neitað öllum ásökunum.

„Barnaverndarstofa biður þær konur, sem vistaðar voru á heimilinu, afsökunar á að ekki hafi verið brugðist betur við þeim upplýsingum sem stofunni bárust varðandi starfsemi heimilisins,“ segir í bréfinu.

Þar kemur fram að skoðun stofnunarinnar hafi komið fram vísbendingar um óeðlilegar starfsaðferðir. „Þessum vísbendingum hefði verið hægt að fylgja eftir og bregðast við með markvissari hætti en gert var.“

Forstjórinn segir að heimilið hafi unnið út frá hugmyndafræði sem þótti góð og gild á sínum tíma en samstaða sé á meðal sérfræðinga í dag að sé úrelt og eigi alls ekki við þegar unnið er með börnum sem glíma við margþættan vanda og þurfa umfram allt stuðning og aðstoð.

Telur Barnaverndarstofa rétt að yfirfara verkferla er varðar eftirlit með börnum sem vistuð eru á meðferðarheimilum og er sú vinna hafin.

Sex konur stigu fram í Stundinni og greindu frá andlegu og líkamlegu ofbeldi sem þær sögðust hafa orðið fyrir á meðferðarheimilinu Laugalandi í Eyjafirði.

Starfsmenn barnaverndar og BUGL kvörtuðu yfir forstöðumanni Laugalands

Starfsmenn barnaverndarnefnda og fagteymi Barna- og unglingageðdeildar Landspítala kvörtuðu yfir Ingjaldi Arnþórssyni, fyrrverandi forstöðumanni meðferðarheimilisins Laugalands vegna ásakana um ofbeldi og niðurlægingu.

Stundin fjallar ítarlega um málið í nýjasta tölublaði sínu en þar kemur fram að starfsmenn barnaverndarnefnda hafi kvartað yfir samskiptum við forstöðumanninn og fagteymi BUGL kvartað vegna vinnubragða hans í máli skjólstæðings.

Einn starfsmaður barnaverndarnefndar kvartaði til Barnaverndarstofu vegna stúlku sem sakaði tvo starfsmenn heimilisins um að beita sig ofbeldi eftir tveggja daga dvöl. Annar kvartaði vegna dónaskaps, yfirgangs og niðurlægjandi samræðna. Sagði hann foreldrar hafa verið í áfalli eftir fyrstu heimsókn á heimilið þar sem starfsmenn lýstu því yfir að fjórtán ára dóttir þeirra myndi selja sig fyrir fíkniefni. Að mati eins starfsmanns nefndarinnar ætti ekki nokkurt barn að fara á Laugaland í meðferð.

Sex starfsmenn BUGL kvörtuðu vegna vinnubragða Ingjalds í máli stúlku sem var lögð inn á BUGL vegna vanlíðunar og þunglyndis eftir að hafa dvalið á Laugalandi. Ingjaldur taldi stúlkuna ekki hafa nýtt sér meðferðina og var ákvörðun tekin í samstarfi við fulltrúa Barnaverndarstofu, lækna og félagsráðgjafa BUGL að hún myndi fara aftur á Laugaland. Eftir að stúlkan sagðist alls ekki vilja fara aftur þangað hafi Ingjaldur tekið undir með henni og sagt ekkert vit í að hún færi þangað aftur, þrátt fyrir að búið væri að taka ákvörðunina. Fagteymi BUGL lýsti undrun sinni á þessum vinnubrögðum.

Hrifsaði í stúlku og hrinti henni

Ingjald gekkst við því að hafa hrint stúlku á heimilinu eftir að hafa gengið ögrandi fram hjá honum. Þetta kemur fram í svari við kvörtun sem barst Barnaverndarstofu árið 2000 og er greint frá í nýjasta tölublaði Stundarinnar.

Stúlkan sem um ræðir kvartaði til barnaverndar að hún hefði verið beitt ofbeldi af Ingjaldi í september það ár í lok fundar um hegðun hennar. „Ingjaldur var brjálaður í skapi, kallaði mig ógeð nokkrum sinnum, reif mig niður stigann, hélt mjög fast í mig þannig að ég er með marbletti og sagði að ég væri heppin að hann berði mig ekki,“ segir í kvörtunarbréfinu sem Stundin birtir.

Ingjaldur lýsir því þannig stúlkan hafi gengið hægt og ögrandi fram hjá honum eftir að hann bað hana um að standa upp og ræða við annan starfsmann. „Hún kom gangandi mjög hægum ögrandi skrefum. Þegar hún gekk fram hjá mér hrifsa ég illþyrmilega í annan upphandlegg hennar og hrindi henni áfram með sömu hendi, þar sem ég hélt á einhverjum kassa í hinni hendinni. Það upphefst eitthvert rifrildi og ég kalla hana einhverjum nöfnum í samræmi við tilefnið,“ svarar Ingjaldur. Barnaverndarstofa taldi Ingjald hafa gengið nokkuð lengra en tilefni var til á þessu stig en ekkert framhald var á málinu.

Ráðherra lætur kanna málið

Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar mun kanna hvort og þá í hvaða mæli börn sem vistuð voru á meðferðarheimilinu Varpholti/Laugalandi á árunum 1997 til 2007 hafi sætt illri meðferð, andlegu eða líkamlegu ofbeldi meðan á dvöl þeirra á meðferðarheimilinu stóð.

Ríkisstjórnin samþykkti í lok febrúar tillögu Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um að Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar yrði falin umsjá þess að kanna málið.

Mun stofnunin taka viðtöl við alla hlutaðeigandi aðila, þ.e. þau sem voru vistuð á meðferðarheimilinu, rekstraraðila, starfsmenn heimilisins og ráðgjafa sem önnuðust málefni barnanna. Má þá gera ráð fyrir að stofnunin muni ræða við Ingjald um tíma hans sem forstöðumaður Laugalands.