Interpol hefur bjargað fimmtíu börnum úr klóm barnaníðinga. Níu menn voru handteknir í Taílandi, Ástralíu og Bandaríkjunum og búist er við að fleiri verði teknir.

Rassían er afrakstur rannsóknar sem hófst árið 2017, þar sem rannsakendur beindu sjónum sínum að hulduvef sem samtals 63.000 manns notuðu, víða um heim.

Lögreglan telur að 100 börn til viðbótar við þessi 50 hafi mátt þola kynferðislega misnotkun. Lögreglan vinnur nú að því að hafa uppi á þeim.

Rannsóknin, sem bar heitið Blackwrist, hófst þegar Interpol varð þess áskynja að ellefu drengir, 13 ára og yngri, höfðu verið misnotaðir og myndbönd af því birt á vefnum. Hulduvefurinn umræddi er á þeim hluta internetsins sem finnst ekki í hefðbundnum leitarvélum.

US Homeland Security Investigations elti uppi IP-tölur þeirra notenda sem hýstu efnið. Lögreglan segir að í mörgum tilvikum hafi þeir sem settu inn myndböndin verið búnir að má yfir andlit barnanna, svo erfiðara væri að bera á þau kennsl.

Fyrstu handtökurnar fóru fram í fyrra, þegar aðalstjórnandi síðunnar, Montri Salangam var færður í fangelsi í Taílandi. Annar stjórnandi, Ruecha Tokputza var tekinn haldi í Ástralíu.

Salangam, sem reyndist hafa misnotað barnungan frænda sinn, hefur verið dæmdur til 146 ára fangelsisvistar í Taílandi. Vitorðsmaður hans fékk 36 ára dóm.

Tokputza var dæmdur til 40 ára fangelsisvistar á föstudag. Hann játaði á sig brot gegn ellefu börnum. Um er að ræða þyngsta dóm sem fallið hefur í barnaníðsmáli í Ástralíu.

Lögreglan fann á síma mannsins þúsundir mynda sem barnaníðingar höfðu tekið í Taílandi og Ástralíu. Á sumum þeirra var Tokputza sjálfur aðal gerandinn. Yngsta barnið sem sást á þeim myndum var 15 mánaða gamalt. „Þú ert versta martröð hvers barns og hvers foreldris. Samfélaginu stendur ógn af þér,“ sagði dómarinn við dómsuppkvaðninguna.

Nöfn hinna sjö sem hafa verið handteknir hafa ekki verið gefin upp.