Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalækningum og ónæmislækningum segir skynsamlegt að bólusetja börn og ungmenni gegn Covid-19 af fáeinum ástæðum.

„Fyrir um það bil ári síðan var bólusetningum barna slegið á frest þar sem að rannsóknir lágu ekki fyrir og veiran lagðist síður á börn, en fullorðna,“ upplýsir Ásgeir og segir börn sýkjast mun meira með nýjum afbrigði líkt og Delta og Ómíkron, en áður.

Ásgeir segir börn verða síður veik af veirunni, en það verður að athuga að ákveðinn fjöldi þeirra mun samt sem áður þurfa á sjúkrahúsinnlögn að halda.

„Fimm til tíu af hverjum þúsund heilbrigðum börnum þurfa að leggjast inn á spítala, jafnvel á gjörgæslu. Þá eru börn með undirliggjandi sjúkdóma eðlilega í meiri hættu á að leggjast inn en önnur,“ segir hann.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Ásgeir Haraldsson prófessor í barnalækningum og yfirlæknir Barnaspítala Hringsins.
Mynd/Samsett

Skilur að foreldrar séu hugsi

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir er sammála Ásgeiri um mikilvægi bólusetninga barna, en segist skilja að foreldrar séu hugsi vegna fjölda misvísandi upplýsinga sem flæða um netið.

„Ég skil mjög vel að fólk sé hugsi og á báðum áttum með allar þessar upplýsingar og falsfréttir. Við höfum reynt að draga saman þær upplýsingar hvaða áhættu fólk vill taka, að fá sýkinguna eða bólusetningu,“ segir Þórólfur en telur að áhættan við bólusetningu sé mun minni en af sýkingunni sjálfri.

Ásgeir segir góða foreldra huga vel að því að setja þau ávallt í öryggisbelti og líkir bólusetninguna við ákveðið öryggisbelti.

„Okkur þykir óendanlega vænt um börnin okkar og vil viljum vernda þau, en í stað þess að hugsa að við séum að gera þeim eitthvað vont með því að bólusetja þau þarf kannski að snúa spurningunni við,“ segir Ásgeir og bendir á að foreldrar þurfa líka að hugsa hvort þeir séu að hafna þeirri vernd sem samfélag eins og Ísland býður upp á. „Erum við þá að hafna verndinni?“

Aukaverkanir fátíðar

Við fyrirspurn Fréttablaðsins um aukaverkanir bólusetninganna segir Ásegir ekki stoð fyrir því hvað varðar hormónatruflanir hjá stúlkum. „Einhverjar tíðatruflanir hafa orðið hjá konum, en þær ganga næstum alltaf yfir og það bendir ekkert til að bóluefnið hafi áhrif á hormón eða frjósemisbúskap þeirra,“ segir hann. Þá er hjartavövðabólga einnig fátíð hjá þessum yngri aldurshópi.

„Fyrir mér er þetta no brainer.

Ásgeir segir að ef fólk sýkist af Covid, fær það nokkra brodda veirunnar í sig, miðað við aðeins einn af bóluefninu sjálfu.

Lone Graff Stensballe, barnalækir á Ríkissjúkrahúsinu í Danmörku og prófessor í bóluefnafræðum barna.

Hagur barna ekki í fyrirrúmi

„Bólusetning barna og ungmenna fyrir kórónuveirunni gagnast samfélaginu meira en börnunum sjálfum, segir Lone Graff Stensballe, prófessor í barnalækningum á Ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn, og prófessor í bóluefnafræðum barna. Öfugt við skoðun íslenskra lækna.

Lone segir litla hættu stafa af veirunni fyrir börn og ungmenni, sem og eftirköst eða long covid einkenni sem einnig eru afar fátíð hjá yngri börnum og ungmennum.

„Dönsk yfirvöld mæla með bólusetningum fyrir börn og ungmenni til að hemja samfélagssmitið,“ segir Lone í samtali við Fréttablaðið, en það sé ekki álitið það besta fyrir barnið út frá sjónarhorni barnalækna.

„Ég er ekki á móti bólusetningum fyrir börn og mæli með því að börn með undirliggjandi sjúkdóma þiggi bólusetninguna gegn Covid," segir Lone.

Þá telur hún bóluefnið Pfizer ekki nægilega rannsakað fyrir börn og segir það verji ekki nægilega vel gegn smitum, eingöngu alvarlegum sjúkdómi.

Klaus Birkelund Johansen, yfirlæknir og formaður barnalækna í Danmörku.
Mynd/Dagens medicin

Bólusetning ekki nauðsynleg

„Við erum aðallega að bólusetja börn og ungmenni í Danmörku til að geta haldið samfélaginu gangandi, ekki af því við erum hrædd um börnin, " segir Klaus Birkelund Johansen yfirlæknir barnadeildar á sjúkrahúsinu í Árósum, og formaður barnalækna í Danmörku

Klaus segir það sama og Lone um áhættu sjúkdómsins fyrir börn, „Það er ekki hættulegt fyrir þau að fá veiruna í sig og er bólusetningin ekki nauðsynleg. Fyrir börn í skóla er það gott að fara í bólusetningu, en þá til þess að sleppa við hömlur samfélagsins." segir hann í samtali við Fréttablaðið.

„Afar fá börn hafa lagst inn vegna Covid sýkinga, og ef svo er hefur verið önnur ástæða alvarlegra veikinda en veiran sjálf. Þrjú börn hafa látist í faraldrinum í Danmörku, en þau voru öll með alvarlega sjúkdóma og hægt að líkja kerfinu þeirra við 95 ára veikburða manneskju," segir Klaus.

Norðmenn sammála Dönum

Norðmenn hafa enn ekki gefið út hvenær bólusetning 5 til 11 ára barna mun hefjast og ástæðan sé líklega vegna þess að þau veikjast síður alvarlega, segir Kristin Wasland, barnalæknir á Nordlandsjúkrahúsinu í Bodö, í Noregi.

„Ef börn eru bólusett á þessum aldri er það út frá samfélagslegum sjónarmiðum, en ekki út frá þeirra eigin hagsmunum," segir Wasland í samtali við Fréttablaðið og bætir við að bólusetningin sé þeim samt sem áður örugg og með fátíðar aukaverkanir.

Aðspurð segir hún myndi láta bólusetja sín eigin börn, en með það að leiðarljósi að stöðva útbreiðsluna faraldursins í samfélaginu, ekki vegna þess að hún sé hrædd um að þau veikist af veirunni.

„Ég tel að þessar hömlur séu verstar fyrir börnin og bólusetningin sé eina leiðin til að stöðva útbreiðsluna.“

Þá liggur nýlegt samþykki fyrir í Noregi að hefja bólusetningu barna með undirliggjandi sjúkdóma í þessum aldurshópi, en líkt og fyrr segir er ekki vitað um hvenær heilbrigð börn verða boðuð í bólusetningu.

Kristin Wasland, barnalæknir í Noregi.
Mynd/Skjáskot