Borgarbúar hafa margir lýst yfir óánægju með skipulag Strætó á Menningarnótt.

Vagnar óku eftir laugardagsdagskrá og voru margir orðnir troðfullir á leið í bæinn, jafnvel áður en komið var að Ártúnsbrekku. Strætó lýsti því yfir að aukavögnum yrði beint inn á leiðir þar sem álagið væri mikið en það virðist ekki hafa duga ef marka má kvartanirnar.

Dæmi er um að fólk hafi beðið í rúma klukkustund yfir daginn áður en það komst í vagn með plássi.

Ekki staðið við síðustu ferðir

Vegna álags voru margir vagnar seinir samkvæmt áætlun. Hægt var að nálgast upplýsingar um síðustu ferðir áður en leiðakerfið yrði rofið fyrir flugeldasýningu á vef Strætó. Hluti þeirra vagna, sem voru sennilega seinir á áætlun, mættu ekki á Hlemm, heldur fóru beint á Sæbrautina við Höfða fyrir tæminguna úr miðborginni.

Ólöglegur akstur í örvæntingu

Fréttablaðið hitti þriggja barna fjölskyldu sem beið í klukkustund við Hlemm eftir að hafa mætt í tæka tíð fyrir síðustu ferðir vagna þeirra sem komu aldrei. Yngsta barn þeirra hefði þurft barnastól og var því ólöglegt fyrir þau að fara í leigubíl. Börnin voru þá orðin of þreytt og köld til að ganga að Sæhöfða.

Ekki var hægt að hringja í vini og vandamenn til að biðja um aðstoð svo seint, enda langflestir að fylgjast með flugeldasýningunni og sjálf á leið í vagna. Fjölskyldan fór því beinustu leið í leigubílaröðina. Leigubílstjóri mótmælti nokkrum sinnum, hann var ekki með barnabílstól og gæti misst leyfið fyrir slíkan akstur, en eftir að fjölskyldufaðirinn lýsti örvæntingu sinni samþykkti bílstjórinn með semingi að aka þeim á áfangastað.

Tæmingin hafi þó gengið vel

Lögregla segir að vel hafi gengið að tæma borgina að lokinni flugeldasýningu.

„Þá er Menningarnótt lokið þetta árið og fór hún mjög vel fram að langmestu leyti. Flestir fóru til síns heima eftir flugeldasýninguna og gekk vel að stýra umferðinni úr miðborginni,“ segir í Facebook færslu lögreglunnar.