Stjórn SÍUNG, Sam­taka ís­lenskra barna- og ung­linga­bóka­höfunda, segir út­hlutun lista­manna­launa í ár vera eina þá verstu síðan árið 2014 en barna­bóka­höfundar fá einungis um tíu prósent af út­hlutun rit­höfunda. Stjórnin segir mikil­vægt að gera barna­bóka­höfundum kleift að stunda skrifin að at­vinnu en ekki í sjálf­boða­vinnu ef .

Til­kynnt var um út­hlutun lista­manna­launa í síðustu viku og fengu rit­höfundar 555 mánuði út­hlutað og barna­bóka­höfundar um 60 mánuði af þeim. Gunnar Helga­son, barna­bóka­höfundur og með­limur í stjórn SÍ­UNG, hefur tekið saman út­hlutun til barna­bóka­höfunda frá árinu 2013 en að­eins einu sinni hefur barna­bóka­höfundur hlotið tólf mánuði. Sjálfur segist hann lítið skilja í úthlutuninni.

Lesskilningur barna versnar

„Á árunum 2016-2017 sáum við fjölgun í fjölda mánaða til barna­bóka­höfunda en árið 2018 snar­fækkaði þeim. Út­hlutunin í ár sýnist okkur sú versta síðan 2014. Á sama tíma horfum við upp á les­skilning barna fara hrakandi enn eina ferðina,“ segir í svari stjórnar SÍ­UNG við fyrir­spurn Frétta­blaðsins og er þar vísað til PISA-könnunarinnar sem fram­kvæmd var árið 2018.

Niður­stöður könnunarinnar, sem kynntar voru í síðasta mánuði, sýndu fram á að nem­endur stæðu sig undir væntingum í les­skilningi og að nem­endum sem ekki nái grunn­hæfni í les­skilningi hafi fjölgað mark­tækt. Að sögn stjórnar SÍ­UNG er ekki skrítið að börn snúi sér frekar að af­þreyingar­efni á ensku þar sem full­orðna fólkið sýni barna­menningu tak­markaðan á­huga.

„Eftir síðustu PISA könnun hefðum við átt að taka okkur á sem þjóð og renna enn styrkari stoðum undir starf barna­bóka­höfunda, bæði þeirra sem skrifa texta og þeirra sem mynd­lýsa bækurnar, en þess má geta að enginn mynd­höfundur fær laun í ár, hvorki úr hönnunar­sjóði né mynd­listar­sjóði,“ segir í svari stjórnarinnar.

Erfitt að lifa á listinni

Þá kemur fram að margir barna­bóka­höfundar treysti á styrki eða laun til þess að geta skrifað. „Mark­hópur barna­bóka er minni en mark­hópur bóka fyrir full­orðna og því gríðar­lega mikil­vægt að styðja við barna­bóka­höfunda og gera þeim kleift að stunda skrifin að at­vinnu en ekki í sjálf­boða­liða­vinnu,“ segir í svarinu.

„Ég vinn bara mjög mikið hina mánuði ársins svo ég geti setið þessa sex og skrifað. Þannig við barnabókahöfundar við skiljum þetta ekki og það væri ágætt að fá umræðu um þetta,“ segir Gunnar í samtali við Fréttablaðið en hann fékk sex mánuði úthlutaða í ár.

Auk þess sem að barnabókahöfundar eigi erfitt með að lifa á starfi sínu segir Gunnar að nýir höfundar eigi sérstaklega erfitt. „Það hafa aldrei verið fleiri nýir rithöfundar í barnabókastéttinni og enginn þeirra fékk listamannalaun, meira að segja höfundar sem hafa verið tilnefndir til íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár, eins og Arndís Þórarinsdóttir, fá ekki neitt,“ segir Gunnar.

Vilja að höfundar geti skilað af sér vönduðu verki

„Barna­bækur eru lang­besta tækið sem við höfum til þess að efla læsi og les­skilning barna á Ís­landi og halda lífi í tungu­málinu okkar,“ segir stjórnin en minnst hefur verið á mögu­leikann að stofna sér­stakan sjóð fyrir þá sem skapa barna­bækur. Þá séu út­gáfu­styrkir til staðar en þeir dugi lítið ef enginn er að skrifa bækurnar.

Ósk stjórnarinnar er að texta- og mynd­höfundar geti sinnt sínu starfi og skilað af sér vönduðu verki. „Barn sem ekki les barna­bækur verður seint að full­orðnum ein­stak­ling sem les full­orðins­bækur, það gefur auga­leið. Sé fólki annt um hag full­orðins­bóka og ís­lenskunnar er bráð­nauð­syn­legt að styðja betur við barna­bækur og skapa þannig les­endur til fram­tíðar.“

Í stjórn SÍUNG sitja Arndís Þórarinsdóttir, Bergrún Íris Sævarsdóttir, Gunnar Helgason og Margrét Tryggvadóttir.