Sandra Gunnars­dóttir, lyfja­tæknir, furðar sig á „ó­manneskju­legri“ frétta­til­kynningu Péturs Magnús­sonar, for­stjóra Hrafnistu sem fyrr í dag sagði upp­­lifun að­stand­enda manns sem lést 31. októ­ber síðast­liðinn ekki vera lýsingu á raun­veru­­legri at­burða­rás. Sandra, sem er barna­barn mannsins, bendir á að Pétur hafi hvorki verið á staðnum né óskað eftir nánari skýringu að­stand­enda um málið. ,,Þessi tilkynning hefur bara þann tilgang að draga úr okkar upplifun af dauða Ingólfs afa," segir Sandra í samtali við Fréttablaðið.

Læknir leit aldrei á sjúk­linginn

„Enginn læknir var á staðnum þetta kvöld, hvernig getur hann sagt það sem hann er að segja?“ spyr Sandra. Hún bendir einnig á að læknir á Hrafnistu, sem fjöl­skyldan átti í sam­skiptum við daginn eftir and­látið, hafi sér­stak­lega tekið fram að það ætti á­vallt að verða við beiðni að­stand­enda um að fá lækni til að líta á sjúk­ling.

Sami læknir tjáði Söndru, ó­líkt for­stjóranum, að undir­mannað hafi verið á deildinni kvöldið sem afi hennar, Ingólfur, lést. „Hann tók skýrt fram að mun meiri vinna hefði átt að fara í afa og að hann hefði átt að vera mál málanna þetta kvöld,“ segir Sandra. Þá fór téður læknir einnig fram á að krufning skyldi vera gerð á hinum látna sem sé al­mennt ekki til siðs á hjúkrunar­heimilum.

Aug­ljós við­vörunar­merki

Sandra lýsir at­burðar­rás síðasta degi í lífi afa hennar og í­trekar að mörg við­vörunar­merki hafi gefið til kynna að Ingólfur þyrfti að komast undir læknis­hendur.

Sím­tal barst móður Söndru klukkan sjö að kvöldi þar sem henni var til­kynnt að föður hennar hafi hnigið niður klukku­tíma fyrr. Hún fékk þær út­skýringar að lík­lega væri það vegna þess að hann hefði ekkert borðað yfir daginn. „Afi var maður sem kvartaði aldrei en þennan sama dag hafði hann kvartað undan maga­verk, sem var mjög ó­líkt honum að gera,“ segir barna­barnið.

Of ann­ríkt til að sinna deyjandi manni

Mæðgurnar brunuðu því á Hrafnistu þar sem í ljós kom að líðan hans var mun verri en þeim hafði grunað. Þá hafi þær í­trekað óskað eftir að læknir myndi líta á hann en á­valt fengið þau svör að hann væri upp­leið.

„Við bentum á að hann væri ís­kaldur, hann var með mjög svo út­þaninn kvið, eitt augað hans lafði alveg niður, hann var með kaldan svita, það kurraði í lungunum á honum og púlsinn hans fór frá 135 slögum niður í 40 slög á mínútu, hann átti erfitt með að tala og var oft með skerta með­vitund.“ Þessar upp­lýsingar vöktu ekki á­hyggjur starfs­fólks sem átti of ann­ríkt til að sinna Ingólfi.

„Hann var búinn að æla á fötin sín og þær sáu sér ekki einu sinni sóma til þess að taka hann úr ælu­fötunum svo við mamma fórum að puða við það að reyna að skipta um föt á honum því þær máttu ekki vera að því.“ Klukkan níu hvatti læknir sem var á bak­vakt síðan mæðgurnar sím­leiðis til að fara heim til sín.

Sandra birti myndir af afa sínum með í færslu á Facebook en hann var aðeins 69 ára þegar hann lést í síðustu viku.
Mynd/Facebook

Tóku ekki í mál að fara

„Við tókum ekki í mál að víkja hann þar sem það var deginum ljósara að ekki væri allt með felldu,“ segir Sandra og bætir við að fátt hafi verið um svör við spurningum þeirra. „Hann ældi upp svörtum vökva sem við sögðum starfs­fólki að væri blóð, svarið við því að þetta væri bara næringar­drykkurinn sem hann drakk fyrr um kvöldið.“

Þá hafi Sandra fengið þau svör að afi hennar væri með of stórt nef þegar hún benti á að súr­efnis­gríman sem afi hennar var með virtist ekki hafa mikil á­hrif. „Súr­efnis­slanga sem er ætluð að vera í nefinu á fólki var síðan sett í munninn á honum.“

Dó sár­kvalinn í höndum þeirra

Bak­vaktar­læknir sá aldrei á­stæðu til að líta á Ingólf að sögn Söndru. „Þegar hjúkrunar­fræðingurinn gaf sér loksins tíma í að koma þá var henni aug­ljóst í hvað stemmdi og var á­kveðið að gefa honum morfín til þess að lina kvalirnar, sirka hálf­tíma seinna var hann látinn, klukkan tíu.“

Þá segir hún frá því þegar hún og móðir hennar studdu við afa hennar á meðan úr honum helltist lítri af blóði bæði uppi og niðri. „Hann dó í höndunum á okkur, sár­kvalinn. Við horfðum í sak­lausu augun hans á meðan hann reyndi af öllum lífsins krafti að ná andanum en blóðið var orðið það mikið að hann drukknaði í eigin blóði að lokum.

Bakvaktarlæknir Hrafnistu leit aldrei inn til Ingólfs að sögn Söndru.
Fréttablaðið/Anton Brink

Skammar­legt þjóð­fé­lag

Sandra segir að öllum líkindum hafi afi hennar látist úr ós­æðar­rofi. „Það er mjög ban­vænt en má auð­veld­lega sjá í til dæmis í óm­skoðun, ein­kennin lýsa sér einna helst í mjög miklum kvið- og bak­verkjum,“ sem svipi til ein­kenna sem afi hennar hafði lýst um morguninn.

„Við búum í skammar­legu þjóð­fé­lagi þar sem gamalt fólk skiptir því miður engu máli,“ segir Sandra og bætir við að fyrir for­stöðu fólki hjúkrunar­heimilisins hafi bara enn eitt her­bergið verið að losna á Hrafnistu.