Barn varð undir pallbíl við sveitabæ á Árnessýslu síðastliðinn föstudag. Barnið varð undir afturhjóli bifreiðarinnar þegar henni var bakkað á bílastæði við bæinn. Barnið var flutt á sjúkrahús í Reykjavík en meiðsli þess reyndust minniháttar og fékk það að fara heim að lokinn skoðun. Þetta kemur fram í skeyti frá Lögreglunni á Suðurlandi um helstu verkefni þeirra í síðustu viku.

Lögreglan hafði afskipti af þremur einstaklingum sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum fíkniefna. Athygli vekur að einn þeirra kom akandi til skýrslugjafar vegna óskylds máls og vakti ástand hans grunsemdir lögreglumanna, sem töldu hann ekki vera í ástandi til að stjórna bifreið. Tveir reyndust vera sviptir ökuréttindum og einn hafði aldrei öðlast þau.

Ók bílnum ítrekað út af

Þá vaktir aksturslag manns sem ók ítrekað út af veginum og inn á hann aftur grunsemdir vegfaranda. Var hann stöðvaður grunaður um ölvun eftir að tilkynnt hafði verið um aksturslag hans. Tveir aðrir voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis.

Auk þess var tilkynnt um þrettán umferðaróhöpp og þrettán voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Tíu þeirra sem kærðir voru fyrir of hraðan akstur voru erlendir ferðamenn og sá sem hraðast ók mældist á 134 kílómetra hraða á klukkustund.