Samnorræn skýrsla frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, um stöðu barna í leit að alþjóðlegri vernd, sýnir að ekkert Norðurlandanna tryggir réttindi barnanna samkvæmt viðmiðum Barnasáttmálans. 

UNICEF á Íslandi kallar eftir viðhorfsbreytingu innan kerfis, og utan þess, ásamt bættu verklagi til að tryggja aðgengi allra barna að þeim réttindum, sem þeim eru tryggð í lögum. Tillögur úr skýrslunni verða afhentar fulltrúa stjórnvalda í dag. 

 „Hérna á Íslandi er staðan sú að við erum með nýja löggjöf, sem tekur mið af Barnasáttmálanum og í gegnum alla útlendingalöggjöfina er búið að hnýta inn þessi grundvallarmiðvið Barnasáttmálans. Að sama skapi er það gert í athugasemdum sem fylgja útlendingalöggjöfinni. Í raun veru ættu því lögin að tryggja að Barnsáttmálanum og hans viðmiðum sé fylgt. Það kemur hins vegar í ljós, þegar framkvæmdin er skoðuð, að hún er ekki alltaf í samræmi við ákvæði laganna“ segir Eva Bjarnadóttir, réttindagæslufulltrúi hjá UNICEF á Íslandi sem vann að skýrslunni fyrir hönd þeirra.

Eva heldur svo áfram og segir „Það kemur til vegna þess að annars vegar er stutt síðan Barnasáttmálinn var lögfestur á Íslandi og hins vegar vegna þess að það skortir fjármagn í framkvæmd og innleiðingu sáttmálans.“

Ekkert Norðurlandanna tryggir réttindi barnanna

Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna voru níu milljónir barna á flótta frá landi sínu, við lok árs 2016. Auk þeirra voru 23 milljónir barna á flótta innan síns eigins lands, vegna átaka eða náttúruhamfara. 

Frá 2015 hefur að minnsta kosti ein milljón barna komið til Evrópu, í leit að vernd og öryggi. Börn sem hafa flúið stríð, átök, náttúruhamfarir eða fátækt. Í kjölfarið hefur skapast mikil þörf innan allrar Evrópu á að ríkin aðlagi lög og kerfi að þörfum þessara barna, til að tryggja öryggi þeirra. 

Fram kemur í skýrslunni að þó Norðurlöndin standi sig að miklu leyti betur en önnur Evrópuríki, þegar kemur að mótttöku bæði fylgdarlausra barna, og barna í fylgd með fullorðnum, þá nær ekkert landanna að tryggja réttindi barna samkvæmt alþjóðlegum kröfum, og þá sérstaklega þeim kröfum sem Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna setur fram.

Eva segir að hér á landi vantar mikið upp á að börn fái að njóta þeirra réttinda, sem þó búið að tryggja þeim lagalega, en hér á Íslandi var Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna lögfestur árið 2013, og ný útlendingalög voru samþykkt árið 2016, en tóku gildi 2017.  

Tillögur afhentar fulltrúa stjórnvalda í dag

Niðurstöður skýrslunnar byggja á viðtölum við sérfræðinga á þessum vettvangi, auk greiningar á löggjöf hvers ríkis fyrir sig. Skýrslunni fylgja tillögur um umbætur til Norðurlandanna sem heild, og til einstakra ríkja. UNICEF á Íslandi hefur staðfært  tillögur skýrslunnar og bætt við þær.

Tillögunum má skipta í nokkra flokka um almennar tillögur, tillögur er lúta að ferli umsókna um alþjóðlega vernd, tillögur um menntun, um heilbrigðisþjónustu, og um barnavernd.

Í tillögum um menntun er meðal annars vikið að því að tryggja þurfi aðgengi barna að menntun, á öllum skólastigum, þar með talið á leik- og framhaldsskólastigi og að  tryggja þurfi að engar óþarfa tafir verði við skráningu barna til skólavistar.

Í tillögum um bætta heilbrigðisþjónustu er þess krafist að börn, sem sækja hér um hæli, hafi sama aðgengi að allri heilbrigðisþjónustu og önnur börn á Íslandi, svo sem tannlækna- og geðheilbrigðisþjónustu .

UNICEF á Íslandi mun afhenda fulltrúa stjórnvalda sínar tillögur, í dag, að loknu málþingi í Norræna húsinu. Eva segir UNICEF  á Íslandi ekki vera að kalla eftir róttækum lagabreytingum, heldur viðhorfsbreytingu, innan kerfis og annars staðar. 

„Hún þarf raunverulega að eiga sér stað, þessi viðhorfsbreyting. Barn þarf að vera álitið barn, en ekki útlendingur, á meðan það er innan barnaverndakerfisins. Það verður að tryggja jafnræði, til að koma í veg fyrir mismunun og fordóma. Það er mjög sterkt ákall í skýrslunni um að börnin séu í umsjón barnaverndaryfirvalda. Þau eiga ekki að vera á  forræði Útlendingastofnunnar, á neinum tímapunkti, í þessu ferli.“

Börn á ekki að vista ein með fullorðnum

Fram kemur í skýrslunni að börn á Íslandi séu vistuð á móttökustöðvum, með fullorðnum, ef ekki tekst að finna fyrir þau fóstur þegar þau koma til landsins.

 „Því var bætt við nýju útlendingalögin. Heimild til að vista börn 15 ára og eldri í mótttökumiðstöð. Stefna barnaverndaryfirvalda hefur verið sú að fylgdarlausum börnum á að koma í fóstur. Það er góð stefna. En það er ekki alltaf hægt að koma öllum börnum í fóstur um leið og sum börn tolla illa í fóstri. Þá vantar eitthvert annað úrræði, en að vista börnin, ein, með fullorðnum, í mótttökumiðstöð.”

Eva segir að best væri ef það væri heimili, þar sem tekið væri á móti börnunum, á meðan umsókn þeirra er í ferli. „Þannig þau hafi einhvern barnvænan samastað, á meðan þessu stendur. Það vantar hreinlega umönnun í þessar móttökumiðstöðvar. Aðstoð við allskyns daglegar athafnir. Það er það sem börn þurfa á að halda.“ 

Skiptir máli að aldursgreining sé sanngjörn

Ásamt því að krefjast þess að Barnasáttmálinn skuli ávallt hafður ofar lögum um útlendinga, óskar UNICEF þess að mótttaka barna á flótta sé bætt með hagsmuni þeirra að leiðarljósi, að barnaverndaryfirvöld taki fulla ábyrgð á því að réttindi þeirra séu virt og að heildræn aldursgreining fari fram. Auk þess er þess krafist að sett verði á stofn áfrýjunarferli, þar sem barn getur áfrýjað niðurstöðum slíkrar aldursgreiningar.

Eva segir þetta sérstaklega mikilvægt „Það þarf að fara fram mun ítarlegra mat og leyfa börnum að njóta vafans. Þegar barn hefur verið á flótta frá tíu til tólf ára aldri, þá skiptir ekki máli nákvæmlega upp á mánuð, hversu gamalt barnið er. Heldur skiptir máli hvernig þjónustu það fær. Munurinn á því, í kerfinu, að vera barn eða fullorðinn er gríðarlegur og því skiptir svo miklu máli, að þessi greining sé sanngjörn.“ 

Samkvæmt lögum, á að fara fram heildstætt mat. Það er, tanngreining á ekki að vera nóg. „Eftir þeim upplýsingum sem við fengum, við vinnslu skýrslunnar, er matið einungis byggt á tanngreiningum og þegar niðurstaða fæst, þá stendur hún. Það er aldrei tækifæri fyrir barnið að mótmæla því og fá aðra niðurstöðu“ segir Eva Bjarnadóttir.

Hún segir einnig mikilvægt að börn hafi val, um þetta inngrip, sem aldursgreiningin er. „Á einhverjum Norðurlöndunum er hreinlega sagt við börn að ef þau fari ekki í aldursgreiningu, þá verði ekki komið fram við þau sem börn. Ég veit ekki hvernig þetta er orðað við börn á Íslandi, en þau þurfa að eiga val. Með þessum hætti er það val tekið af þeim.“

Skortur á upplýsingum um börn og til barna

  „Það er mikill skortur á upplýsingum og það kemur í ljós í skýrslunni sjálfri. Það eru einungis gögn um umsóknir barna fyrir árin 2016 og 2017. Ekkert fyrir það frá Eurostat eða frá Útlendingastofnun. Að sama skapi hefur þetta lítið verið rannsakað á Íslandi, þannig við höfðum ekki úr eins miklu að moða, eins og hin Norðurlöndin, þar sem þetta hefur verið rannsakað ítarlega.“ 

Fram kemur í skýrslunni að á hinum Norðurlöndunum hafa umboðsmenn barna gefið út skýrslur og þar er búið að tala við börnin sjálf. Eva segir því miklu betra aðgengi að gögnum hafa verið þar, við vinnslu skýrslunnar. 

 „Hér er þetta á algeru frumstigi, og það var ein af ástæðunum fyrir því að við vildum taka þátt í þessari rannsókn. Til að fá betri upplýsingar um bæði ferlið og börnin sjálf.“ 

En Eva segir að þó að fram hafi komið að talsvert vanti upp á upplýsingar um þau börn sem hingað koma og ferlið sjálft, þá hafi ein sterkasta athugasemd skýrslunnar verið sú að upplýsingagjöf til barnanna sjálfra, sem hingað eru komin, sé verulega ábótavant.

Hún tekur dæmi um verkefni sem er í þróun í Svíþjóð, sem fjallað er um í skýrslunni. Þar munu lögreglumenn hafa myndbönd í símum sínum. Í myndböndunum er fjallað er um stöðu barnanna, hvernig barnaverndarkerfið virkar og hvaða rétt börnin hafa. Á tungumáli sem börnin skilja.

 „Það væri mjög gott að fá eitthvað slíkt hér, barnvænar upplýsingar. Við höfum heyrt þetta frá börnunum sjálfum, að það vantar upplýsingar. Þau kannski fyrirgera rétti sínum, því þau fara fram yfir einhvern frest, eða eitthvað misferst í upplýsingagjöf, eða þau einfaldlega skilja ekki“ segir Eva.

Hún heldur áfram. „Það vantar svo mikið af upplýsingum til þeirra. Ferlið er mjög flókið og þótt ég hafi unnið að þessari skýrslu í ár, þá er ég samt óviss með margt í þessu ferli. Það er því alveg merkilegt að þessi börn, sem koma hingað ein, eigi að skilja þetta ferli.“

Öll börn eiga rétt, líka þau sem koma í fylgd með fullorðnum

Eva segir, að þó sé sannarlega mikilvægt að huga að börnum sem fylgdarlaus eru, þá þurfi einnig að huga að börnum sem koma í fylgd með fullorðnum.

 „Það er önnur mikilvæg áhersla, í skýrslunni. Að taka einnig fyrir stöðu barna sem eru þó í fylgd með fullorðnum. Þau hafa gleymst að miklu leyti. Það hefur rosaleg orka farið í að finna út úr stöðu fylgdarlausra barna, því að einhverju leyti er neyð þeirra meiri. Rannsóknir, upplýsingagjöf og viðbrögð miða því oft einungis að því að hjálpa þeim. Þannig er síður talað við börn sem koma í fylgd með fullorðnum.“

Eva segir að á Íslandi er eingöngu rætt við börn sem eru eldri en 15 ára, og fylgdarlaus börn. 

 „Það er ekki rætt við öll börn, nema talin sé sérstök ástæða til. Ég á erfitt með að átta mig á því sjálf, hverjar þær ástæður eru, en það er eitthvað sem Útlendingastofnun áskilur sér að meta. Hvort það sé einhver sérstök ástæða til að ræða við barnið. En það á ekki að skipta máli. Hvert barn getur átt sér sérstakt tilefni til umsóknar. Skilyrðin til að sækja um alþjóðlega vernd eru mjög ströng. Þú þarf að vera í mikilli hættu, eða sæta einhvers konar ofsóknum. Þetta er mjög takmarkaður hópur sem fær alþjóðlega vernd, en börn geta vel fallið undir slíkar aðstæður sjálf.“

Skýrslan er aðgengileg hér.

Formleg kynning í Norræna húsinu í hádeginu í dag

Málþing, á vegum UNICEF á Íslandi og Alþjóðamálstofnunar Háskóla Íslands, fer fram frá 12 til 13.15 í dag.

Dagskrá má sjá hér að neðan. Málþingið er opið öllum.

12:00 – 12:20 Eva Bjarnadóttir, sérfræðingur UNICEF á Íslandi, kynnir helstu niðurstöður skýrslunnar.

12:20 – 12:30 Ísold Uggadóttir, leikstjóri, talar um reynslu sína við gerð myndarinnar Andið eðlilega

12:30 – 13:00 Pallborðsumræður með fulltrúum frá Rauða krossi Íslands, Útlendingastofnun, Barnaverndarstofu og UNICEF