Aðeins tíu dagar eru í að kjördagur renni upp í Bandaríkjunum, en líkt og kunnugt er kjósa Bandaríkjamenn þar um næsta forseta sinn og er þar valið á milli Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, og Joes Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna.

Það er þó ekki aðeins kosið um næsta forseta 3. nóvember. Á sama tíma fara þingkosningarnar fram, þar sem kosið er um öll sætin innan fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og 33 sæti innan öldungadeildarinnar.

Þá fara sérstakar kosningar fram í Arizona og Georgíu til að fylla í sæti öldungadeildarþingmanna sem hafa sagt af sér en sitjandi þingmenn þar eru Repúblikanar.

Repúblikanar náðu meirihluta innan öldungadeildarinnar árið 2014 en í ár er einmitt verið að kjósa um þá þingmenn sem voru kjörnir árið 2014. Um helmingur þingmannanna sem nú er verið að kjósa um hafa aðeins setið í eitt kjörtímabil.

Síðasta Bandaríkjaþing var kjörið árið 2018.
Mynd/Bandaríska sendiráðið í Bretlandi

Öldungadeildin

Alls sitja 100 þingmenn í öldungadeildinni þar sem tveir þingmenn koma frá hverju ríki óháð stærð ríkjanna. Kjörtímabil hvers þingmanns er sex ár en kosið er um þriðjung sætanna á tveggja ára fresti. Nýkjörnir þingmenn í ár taka síðan við embætti í janúar.

Fulltrúadeildin

Alls sitja nú 435 þingmenn í fulltrúadeildinni og er kjörtímabil þingmanna tvö ár en kosið er um öll sætin í einu. Fjöldi þingmanna í hverju ríki fyrir sig er ákveðinn út frá manntali í Bandaríkjunum sem fer fram á tíu ára fresti. Manntalið fer fram í ár og því gæti fjöldi þingmanna verið annar í næstu kosningum.

Raunhæfur möguleiki á að Demókratar taki þingið

Demókratar eru nú með meirihluta innan fulltrúadeildarinnar og benda kannanir til að þeir muni halda þeim meirihluta. Aðra sögu er að segja um öldungadeildina, þar sem Repúblikanar eru í meirihluta, en af þeim sætum sem kosið er um þar eru 23 í höndum Repúblikana.

Demókratar þurfa að vinna þrjú til fjögur sæti til að tryggja sér meirihluta, en ef Biden vinnur kosningarnar þurfa Demókratar aðeins þrjú sæti, þar sem varaforseti Bandaríkjanna er með atkvæðisrétt ef til jafnteflis kemur. Kannanir benda til að það sé raunhæfur möguleiki að Demókratar nái meirihluta þar.

Baráttan milli Demókrata og Repúblikana

Samkvæmt spálíkani heimasíðunnar FiveThirtyEight eru 20 sæti talin örugg eða nokkur örugg (yfir 90 prósent) í kosningunum í ár, en líkanið er unnið út frá meðaltali kannana í hverju ríki fyrir sig. Alls eru 10 sæti talin örugg fyrir Demókrata og 10 sæti fyrir Repú­blikana. Öll þau sæti voru þegar í höndum flokkanna sem spáð er að muni vinna að þessu sinni.

Mjög líklegt er að Repúblikanar missi tvo þingmenn, Cory Gardner frá Colorado og Martha McSally frá Arizona, og að Demókratar missi einn þingmann, Doug Jones frá Alabama. Líklegt er að Repúblikanar haldi þingmönnum sínum í Mississippi, Texas, Suður-Karólínu og Kansas, á meðan líklegt er að Demókratar haldi þingmanni sínum í Michigan.

Barátturíkin

Eftir standa sex þingmenn frá fimm ríkjum, svokölluðum barátturíkjum, en þau ríki eru Iowa, Georgía, Norður-Karólína, Maine og Montana. Í Iowa og í sérstöku kosningunum í Georgíu, eru jafnar líkur á að Demókratar eða Repúblikanar vinni (e. tossup).

Kannanir í Georgíu og Montana hallast að því að Repúblikanar haldi þingmönnum sínum þar, en í Norður-Karólínu og Maine hallast kannanir að því að Demókratar taki sætin af Repúblikönum.

Úrslit

Ef gert er ráð fyrir að úrslit kosninganna verði í samræmi við spálíkanið, munu Demókratar bæta við sig þremur sætum og jafna þar með þingmannafjölda Repúblikana. Kosningarnar í Iowa og sérstöku kosningarnar í Georgíu, myndu síðan ráða úrslitum.

Þó er vert að taka fram að aðeins er um að ræða spálíkan sem er unnið út frá könnunum og er ekki öruggt að niðurstöður kosninga verði í samræmi við líkanið. Við gerð líkansins er þó litið til stjórnmálahegðunar í hverju ríki fyrir sig og ýmsa aðra þætti.

Hér fyrir neðan má sjá líkurnar á kjöri þingmanna í hverju ríki fyrir sig:

Öruggir þingmenn

Demókratar:

 • Rhode Island - Rúmlega 99 prósent líkur á að Jack Reed haldi sæti sínu gegn Allen Waters.
 • Massachusetts - Rúmlega 99 prósent líkur á að Ed Markey haldi sæti sínu gegn Kevin O'Connor.
 • Delaware - Rúmlega 99 prósent líkur á að Christopher A. Coons haldi sæti sínu gegn Lauren Witzke.
 • Illionois - Rúmlega 99 prósent líkur á að Richard J. Durbin haldi sæti sínu gegn Mark C. Curran Jr.
 • New Jersey - Rúmlega 99 prósent líkur á að Cory Booker haldi sæti sínu gegn Rikin Mehta.
 • Oregon - Rúmlega 99 prósent líkur á að Jeff Merkley haldi sæti sínu gegn Jo Rae Perkins.
 • Virginía - Um 99 prósent líkur á að Mark Warnes haldi sæti sínu gegn Daniel Gade.
 • New Hampshire - Um 98 prósent líkur á að Jeanne Shaheen haldi sæti sínu gegn Corky Messner.
 • Nýja-Mexíkó - Um 94 prósent líkur Demókratar vinni þar sem Ben Ray Luján fer á móti Mark Ronchetti.
 • Minnesota - Um 92 prósent líkur á að Tina Smith haldi sæti sínu gegn Jason Lewis.

Repúblikanar:

 • Arkansas - Rúmlega 99 prósent líkur á að Tom Cotton haldi sæti sínu gegn Ricky Dale Harrington Jr.
 • Wyoming - Rúmlega 99 prósent líkur á að Repúblikanar vinni þar sem Cynthia Lumis fer á móti Merav Ben David.
 • Nebraska - Rúmlega 99 prósent líkur á að Ben Sasse haldi sæti sínu gegn Chris Janicek.
 • Suður-Dakóta - Rúmlega 99 prósent líkur á að Mike Rounds haldi sæti sínu gegn Dan Ahlers.
 • Vestur-Virginía - Rúmlega 99 prósent líkur á að Shelley Moore Capito haldi sæti sínu gegn Paula Jean Swearengin.
 • Idaho - Rúmlega 99 prósent líkur á að Jim Risch haldi sæti sínu gegn Paulette Jordan.
 • Tennessee - Rúmlega 99 prósent líkur á að Repúblikanar vinni þar sem Bill Hagerty fer á móti Marquita Bradshaw.
 • Oklahoma - Rúmlega 99 prósent líkur á að Jim Inhofe haldi sæti sínu gegn Abby Broyles.
 • Louisiana - Um 97 prósent líkur að Repúblikani vinni gegn Demókrata (margir á lista).
 • Kentucky - Um 96 prósent líkur á að Mitch McConnell haldi sæti sínu gegn Amy McGrath.

Líklegir þingmenn

Repúblikanar:

Mississippi - Um 89 prósent líkur á að Cindy Hyde-Smith haldi sæti sínu gegn Mike Espy.

Texas - Um 87 prósent líkur á að John Cornyn haldi sæti sínu gegn Mj Hegar.

Alaska - Um 80 prósent líkur eru á að Dan Sullivan taki sætið af Al Gross.

Suður-Karólína - Um 77 prósent líkur eru á að Lindsey Graham haldi sæti sínu gegn Jaime Harrison.

Kansas - Um 75 prósent líkur á að Roger Marshal haldi sæti sínu gegn Barbara Bollier.

Demókratar:

Colorado - Um 83 prósent líkur á að John Hickenlooper taki sætið af Cory Gardner.

Michigan - Um 79 prósent líkur á að Gary Peters haldi sæti sínu gegn John James.

Arizona (sérstakar kosningar) - Um 78 prósent líkur á að Mark Kelly taki sætið af Martha McSally.

Mögulegir þingmenn

Repúblikanar:

Georgía - Um 71 prósent líkur á að David Perdue haldi sæti sæti sínu gegn Jon Ossoff.

Montana - Um 68 prósent líkur á að Steve Daines haldi sæti sínu gegn Steve Bullock.

Demókratar:

Norður-Karólína - Um 64 prósent líkur á að Cal Cunningham taki sætið af Thom Tillis.

Maine - Um 63 prósent líkur á að Sara Gideon taki sætið af Susan Collins.

Jafnar líkur (hallast að Demókrötum):

Iowa - Um 56 prósent líkur á að Theresa Greenfield taki sætið af Joni Ernst.

Georgía (sérstakar kosningar) - Um 53 prósent líkur á að Demókrati vinni gegn Repúblikana (margir á kjörseðlinum, líklegt að enginn nái meirihluta en þá fara aðrar kosningar fram í janúar milli tveggja efstu frambjóðendanna).

Spálíkanið sem notast var við í þessari frétt var uppfært seinnipart dags 24. október 2020. Hægt er að sjá spálíkanið í heild sinni hér.