Birna Dröfn Jónasdóttir
Laugardagur 4. mars 2023
16.00 GMT

Geirfuglinn var afar algengur á Norður-Atlantshafi fyrr á öldum. Hann var meðal annars algengur á ströndum Íslands, Grænlands og Færeyja, við Noreg, Kanada og á nyrstu eyjum Bretlands. Talið er að geirfuglar hafi verið margar milljónir áður er farið var að veiða þá en ekki eru til skýrar tölur um það hversu stór stofninn var hér á Íslandi.

Um aldamótin 1800 var ofveiði farin að hafa áhrif á fjölda geirfugla sem hafði þá fækkað verulega. Geirfuglinn var ófleygur og því var auðvelt að veiða hann. Mest var hann veiddur af sjómönnum sem á löngum ferðum sínum lögðu sér fuglinn til munns en hann var bæði kjötmikill og stór, eða rúmir 70 sentímetrar á hæð.

Það voru þó ekki einungis sjómenn sem veiddu geirfuglinn heldur var farið út í eyjarnar þar sem hann lifði og hann veiddur til matar og einnig voru fjaðrir hans notaðar í fatnað. Til eru ýmsar frásagnir af því að þegar menn komu á eyjarnar í fuglatekju hafi þeir orðið fyrir árásum geirfugla. Fuglarnir hafi ráðist á mennina í þéttum fylkingum með miklum krafti og troðið þá niður. Eina leiðin til að sjá við árásum að þessu tagi hafi verið að drepa fuglana sem fremstir voru í fylkingunni. Þá hafi hinir snúið við og reynt að flýja, aldrei hafi verið auðveldara að veiða þá en á flóttanum.

Síðustu geirfuglarnir

Þegar geirfuglum fór að fækka jókst eftirspurn safnara sem ásamt náttúrugripasöfnum borguðu háar fjárhæðir fyrir fuglinn. Segja má að það hafi verið endalok geirfuglsins. Carl Franz Siemsen var kaupmaður í Reykjavík, en hann var einnig umboðsmaður fyrir erlend söfn og safnara. Árið 1844 fékk hann ósk um geirfugl erlendis frá. Hann bauð bændum í Höfnum 300 krónur fyrir fugl, dauðan eða lifandi. Þeir fóru þá fjórir saman út í Eldey þar sem þeir fundu tvo geirfugla sitjandi á klettasnös, fuglana sneru þeir úr hálsliðnum og þáðu 300 krónurnar.

Talið er að þarna hafi verið um að ræða tvo síðustu geirfuglana. Einhverjar sögur eru af því að sést hafi til geirfugla eftir það, flestar frá Grænlandi. Nýjustu sögurnar eru frá sjötta áratug nítjándu aldar en óvíst er um áreiðanleika þeirra.

Geirfuglinn heim

Á þessum degi, þann 4. mars árið 1971, 127 árum eftir að síðasti geirfuglinn var veiddur í Eldey var uppstoppaður geirfugl boðinn upp hjá uppboðshúsinu Sotheby‘s í London. Íslendingar fengu fregnir af því að bjóða ætti fuglinn upp og ætluðu sér strax að ná honum.

Valdimar Jóhannesson, blaðamaður og lögfræðingur, setti af stað söfnun fyrir fuglinum nokkrum dögum áður en uppboðið fór fram. Um tvær milljónir króna söfnuðust, á þeim tíma var slík upphæð andvirði einbýlishúss.

Í viðtali við DV árið 2018 sagðist Valdimar hafa séð tækifæri til að koma geirfuglinum heim þegar hann heyrði af uppboðinu. Hér á Íslandi hafi á þeim tíma verið til beinagrind geirfugls og egg, en enginn hamur. Vitað var að fleirum hugnaðist að eignast uppstoppaða geirfuglinn, bæði söfnum og einkaaðilum. Helsti keppinautur Íslendinga var þó hin ameríska Du Pont-fjölskylda sem var þá að koma sér upp einkareknu náttúrugripasafni.

Valdimar fór til London ásamt dr. Finni Guðmundssyni frá Náttúrugripasafni Íslands. Þeir fóru með það að markmiði að koma fuglinum heim, ekki kom annað til greina. Mikil spenna var í loftinu þegar geirfuglinn var boðinn upp, margir blaðamenn voru á svæðinu sem og margir Íslendingar sem búsettir voru í London. Uppboðið tók ekki nema fimm til sex mínútur en Íslendingarnir fengu lögmann frá Sotheby‘s sér til halds og trausts.

Á myndinni sem tekin er á Þjóðminjasafninu sjást Þórarinn Eldjárn og Kristján Eldjárn, Valdimar og eiginkona hans Fanný Jónmundsdóttir, Gylfi Þ. Gíslason og uppstoppaði geirfuglinn.
Mynd/Aðsend

Heimsmet í verði fyrir náttúrugrip

Fyrsta boð í uppstoppaða geirfuglinn var 500 pund. Hann seldist þó mun dýrara og endaði í höndum Íslendinganna. Du Pont-fjölskyldan hafði þá reynt sem hún gat að yfirbjóða Íslendingana. Þegar Íslendingar höfðu boðið sex þúsund pund sá ameríska fjölskyldan sér leik á borði og bauð tveimur þúsundum betur. Ekki bjuggust þau við að Íslendingarnir byðu þá þúsund pundum meira og hrepptu geirfuglinn á 9.000 pund. Dagana á eftir var í fréttum talað um heimsmet í verði fyrir náttúrugrip.

Í viðtalinu við DV sagði Valdimar frá því að aðeins örfáir hefðu vitað að hann hafði heimild frá ríkisstjórninni til að bjóða þrefalt meira. „Ef þetta hefði farið hærra hefði ég sjálfur gripið inn í. En þetta mátti ekki spyrjast út,“ sagði hann.

Það sem kom Valdimar á óvart eftir að fuglinn var keyptur var að þá tók uppboðshúsið enga frekari ábyrgð á honum. „Þetta var svolítið ógnvænlegt og við höfðum ekki gert ráð fyrir þessu. Ég varð að taka fuglinn í fangið og fara með hann í leigubíl að íslenska sendiráðinu,“ sagði Valdimar. Þar var fuglinn tryggður og honum pakkað vel og komið til Íslands. Um 80 uppstoppaðir geirfuglar hafa varðveist til dagsins í dag. Þann sem keyptur var á uppboðinu í London má finna hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Athugasemdir