Steinar Immanúel Sörensson, einn þolenda í svokölluðu Hjalteyrarmáli, segist hafa barist allt frá árinu 2007 fyrir því að rannsókn færi fram á starfsemi barnaheimilisins, sem rekið var í nokkur ár við Hjalteyri í Eyjafirði á áttunda áratug síðustu aldar.

„Strax eftir að Breiðagerðismálið kom upp bað ég um rannsókn, en þá bar ríkið því við að hún ætti ekki við vegna þess að ekki hefði verið um ríkisrekið heimili að ræða. Það náttúrlega stenst enga skoðun,“ segir Steinar.

Hann bætir við að hann hafi upplifað að sér hafi ekki verið trúað. „Ég upplifði viðmót eins og ég væri að ljúga.“

Um sanngirnisbætur sem Vistheimilanefnd hefur greitt út til þolenda í sambærilegri stöðu og umræða er um að endurvekja, segir Steinar að hann myndi þiggja bæturnar. Þær séu þó ekki aðalatriðið í hans huga.

„Við verðum að einfaldlega fá þessi mál upp á yfirborðið. Ég og aðrir þolendur viljum afsökunarbeiðni að lokinni rannsókn.“

Steinar segir að sárin sem dvölin á Hjalteyri skildi eftir, muni aldrei gróa.

„Fólk verður að átta sig á að þessi meðferð í bernsku hefur litað allt mitt líf. Allt mitt líf og bróður míns og fjölmargra annarra barna sem þarna voru.“

„Það eru mörg líf í rúst, sumir hafa fyrirfarið sér. Ég heyrði í manni sem sagðist hafa grátið í þrjá daga eftir þáttinn vegna þess að hann rifjaði upp sína eigin reynslu,“ bætir hann við.

Eftir að Stöð 2 afhjúpaði síðastliðinn sunnudag hvernig börn á heimilinu þurftu að upplifa kúgun og kynferðisofbeldi, gjarnan undir yfirskyni guðstrúar, hafa orðið mikil viðbrögð. Steinar segist hafa fylgst með framvindunni í kerfinu. Viðbrögðin hafi vakið blendin viðbrögð, þakklæti, en líka aðrar tilfinningar.

Erfitt hafi verið að sjá ráðamenn móast við að taka ábyrgð á hvaða ráðuneyti eigi að standa fyrir rannsókn. Hann hafi þó ekki setið auðum höndum og látið duga að fylgjast með, heldur hafi hann átt símtal við forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson, í gær.

Auk þess sendi Steinar Salvöru Nordal, umboðsmanni barna, bréf eftir að Fréttablaðið birti viðbrögð umboðsmanns barna við málinu. Salvör segir frásagnirnar hræðilegar. Málið sé mjög alvarlegt, ekki síst vegna þess að brotið hafi verið á börnum sem eigi sér ekkert bakland. Málið sýni fram á mikilvægi eftirlits með allri svona starfsemi.

For­sæt­is- og dóms­málaráðherrar ætla að kalla eftir greinargerð um hvernig beri að haga rannsókn á máli barnanna á Hjalteyri, enda sé búið að fella lög um Vistheim­ila­nefnd úr gildi.