„Það er barist á ýmsum víg­stöðvum og við sjáum að að­gerðirnar eru að hafa á­hrif, klár­lega.“ Þetta segir Viðar Þor­steins­son, fram­kvæmda­stjóri Eflingar, en sólar­hrings­verk­fall Eflingar og VR hófst á mið­nætti í nótt. 

„Það eru ýmis jaðar­til­felli sem við fylgjumst með og þurfum að vakta. Reynslan frá 8. mars sýndi að það er full þörf fyrir verk­falls­vörslu,“ bætir hann við.  

Starfs­menn og sjálf­boða­liðar Eflingar og VR eru á verk­falls­vörslu og er starfs­fólk hótela byrjað að ganga út. 

„Við höfum flokkað hótelin eftir stað­setningum og starfs­fólkið kemur saman og gengur fylktu liði á­kveðna leið. Þau eru núna hjá Húsi at­vinnu­lífsins.“ 

Um há­degi í dag munu rútu­bíl­stjórar safnast saman og vera með dag­skrá í Vina­bæ. „Verk­falls­varsla okkar er á fleygi­ferð um bæinn og fer á milli hótelanna og helstu hóp­bið­freiða-stöðva.“ 

Viðar segir þau vera á bak­vakt hjá ríkis­sátta­semjara, sem hefur ekki kallað þau í hús í dag enn sem komið er.