Maður sem varð vitni að líkams­á­rás á gatna­mótum Kringlu­mýrar­brautar og Háa­leitis­brautar fyrr í dag segir á­rásina hafa verið hrotta­lega og til­efnis­lausa. Um hafi verið að ræða full­vaxta karl­mann sem gekk til­efnis­laust í skrokk á ungri konu. 

Snorri Barón Jóns­son sá á­rásina úr fjar­lægð, en hann sat í bíl á rauðu ljósi á­samt fé­laga sínum þegar maðurinn réðst á konuna. Snorri greinir frá at­vikinu á Face­book-síðu sinni, en segir í sam­tali við Frétta­blaðið að málið snúist síst um hann sjálfan og honum sé annt um að unga konan sé í lagi og fái rétta að­hlynningu. Hann veitti þó Frétta­blaðinu góð­fús­legt leyfi til að endur­birta frá­sögn hans. 


„Hjólaði í hana“
Snorri segir til­drög málsins hafa verið þau að maðurinn hafi verið ó­sáttur við að bíllinn sem konan ók hafi skagað lítil­lega inn á gang­brautina.

„Hann byrjaði á að sparka í bílinn hennar og garga dug­lega á hana. Hún fór út úr bílnum og til að ræða við hann og þá hjólaði hann bara í hana,“ ritar Snorri sem var fastur á rauðu ljósi hinu megin við götuna og gat því ekki brugðist við fyrr en maðurinn var búinn að ná að „lumbra ansi dug­lega á konunni, henda henni inn í runna og stappa á henni þar.

Sjá einnig: Gekk í skrokk á ungri konu á Háa­leitis­braut

„Um leið og við náðum að bruna yfir til þeirra og negla bílnum upp á gang­stéttina þá tók hann á rás. Ég skokkaði nokka metra á eftir honum en fattaði fljótt að ég var ekki að fara að ná honum. Jens fór beint til stelpunnar til að hlúa að henni. Hún var tals­vert þjáð og var að sjálf­sögðu einnig í á­falli. Hún hafði miklar á­hyggjur af bílnum sem hún var að keyra því hann væri ekki í hennar eigu. 

Ef eig­andi bílsins er ekki að fara að sýna því skilning að hún varð til­viljana­kennt fyrir al­var­legri líkams­á­rás þá er fokið í flest skjól.“ Þá segir Snorri lög­reglu, sjúkra­bíl og fjöl­mörg vitni hafa komið á vett­vang skömmu síðar og ungu konunni verið komið í öruggt skjól. 

„Gaurinn var hand­tekinn skömmu síðar þannig að hann er mættur á fram­tíðar­heimili sitt og vonandi verður hann þar bara sem lengst. 

Ef ein­hver hér þekkir til stelpunnar sem varð fyrir á­rásinni þá myndi ég gjarnan vilja að hún fengi þau tíðindi að ef hana vantar ein­hverja að­stoð þá skal ég glaður hjálpa til,“ ritar hann að lokum.