Nýir húseigendur á Hverfisgötu 33 vilja meina að Framsóknarmenn beiti öllum brögðum til þess að tefja fyrir opun nýs bars sem til stendur að opna á jarðhæð hússins, þar sem veitingastaðurinn Kryddlegin Hjörtu var áður til húsa. 

Til stóð að opna barinn, sem mun bera nafnið Miami Hverfisgata, í lok maí en ekki er hægt að opna fyrr en leyfi fæst frá yfirvöldum. Leyfið fæst ekki fyrr en salernisaðstaða fyrir fatlaða hefur verið innréttuð en til stendur að hefja þær framkvæmdir á þriðjudag.

Í húsinu eru tveir eigendur, annars vegar Róbert Óskar Sigurvaldason, sem stefnir á að opna barinn og hins vegar Hrólfur Ölvisson, stjórnarformaður Skúlagarðs, félags sem Framsóknarflokkurinn á hlut í. Framsóknarflokkurinn leigir einnig efri hæð hússins undir skrifstofu sína ásamt sal á efstu hæðinni. Salurinn er stundum leigður út og hefur til að mynda hýst kosningavökur flokksins í gegnum tíðina.

Samskiptaörðugleikar

Ljóst er að samskiptaörðugleikar eru á milli eigenda hússins og hafa samskiptin gengið illa allt frá því að nýju eigendurnir hófu framkvæmdir í sínum hluta hússins í febrúar á þessu ári. Tekist er á um salerni fyrir fatlaða, neyðarútgang í kjallara, skilti Framsóknarflokksins framan á húsinu og salinn á efstu hæðinni.

„Það eru ákveðnir samskiptaörðugleikar í gangi milli aðila, meðal annars hefur húseigandinn á efri hæð hússins fjarlægt hurðarhún af salerni fyrir fatlaða, þannig að í raun er ekki lengur slík aðstaða fyrir fatlaða, eins og reglur kveða á um. Það var þannig að fyrri eigendur neðri hæðarinnar höfðu aðgang að þessu salerni en af einhverjum undarlegum ástæðum þá hefur Framsóknarflokkurinn ekki áhuga á því að fatlaðir geti notað salernið í þessu húsi,” segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Róberts, í samtali við Fréttablaðið. 

Róbert útskýrir að honum hafi upphaflega verið kynnt að umrætt klósett væri í óskiptri sameign en seinna hafi komið í ljós að svo ekki hafi verið. Samkomulag hafi verið við fyrri eiganda hússins um notkun á klósettinu og hann hafi gert ráð fyrir að auðvelt yrði að sækja slíkt samkomulag aftur þar sem sameignin í húsinu sé fyrir framan klósettið. Hann segir að farið verði í framkvæmdir innandyra hjá sér í næstu viku þar sem klósett fyrir fatlaða verður innréttað, en að augljóst sé að sambúðin verði stirð.  

„Þetta er svona eins og alþekkt er að menn gera samkomulag sín á milli og þar sem við þurfum að vera nágrannar, hvort sem við viljum eða ekki þá myndi maður halda það að stjórnmálaflokkur myndi hliðra til þar sem þetta er ekkert rask á þeirra rými. Enda sér maður að þeir eru ekkert að nota þetta og þeir eru ekki einu sinni með aðstöðu fyrir fatlað fólk sem kemur til þeirra,” segir Róbert og bendir á að klósett fyrir fatlaða sé ekki í stöðugri notkun og honum þyki því eðlilegt að samnýta aðstöðuna. 

Rýri verðgildi hússins

Hrólfur hinn eigandi hússins segir að með því að deila klósetti fyrir fatlaða með bareigendum muni verðgildi hússins rýrna. „Það liggur fyrir eignaskiptasamningur og allt saman, þegar menn kaupa þetta. Þeir vilja fá aðgang að salerni í okkar eigu, Skúlagarðs en við vorum búnir að tilkynna öllum aðilum í febrúar að við myndum ekki leyfa þetta áfram, þannig að það er ósköp einfalt og rýrir verðgildi hússins að gera svona.” 

Hrólfur segir að nýju eigendunum hafi verið tilkynnt í bréfi að samkomulagið yrði ekki framlengt. „Það var allt gert og þeir vissu það allt saman, þeir bara töldu sig eiga þetta, svo sjá þeir eignaskiptasamninginn og svo er auðvitað ekki,” segir Hrólfur, hann kannast þó ekki við að hurðarhúnn hafi verið fjarlægður af salernisaðstöðunni. 

Hrólfur bendir á að iðnaðarmenn hafi vaðið inn á klósettið á meðan á framkvæmdum stóð og segir að sér þyki ekki eðlilegt að þeir noti klósett annarra. „Eðlilegra væri að þeir gerðu sitt eigið klósett í sínum hluta húsnæðisins.” Hann segir að það liggi fyrir að þeir hjá Skúlagarði taki á móti fötluðu fólki. Kristinn Bjarnason, lögmaður Skúlagarðs, tekur undir það og segist ekki sjá á hvaða grundvelli nýr kaupandi ætti að eiga rétt á að nýta séreign annars aðila í þágu síns rekstrar.

Kristinn segir að hann hafi reynt að koma því á framfæri að rekstraraðilar barsins hafi ekki haft heimild til þess að nota séreign Skúlagarðs í eigninni. Búið sé að upplýsa seljanda sem og nýja eigandann um að heimild fyrra starfsleyfis um að nýta klósettið væri fallin niður og að það hafi einnig verið tilkynnt til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Hann segir vandann liggja hjá seljanda eignarinnar og Róberti en ekki hjá Skúlagarði. 

Honum er ekki kunnugt um að hurðarhúnn hafi ítrekað verið fjarlægður af salernisaðstöðu fatlaðra í húsinu en að iðnaðarmenn á vegum Róberts hafi farið þar inn í heimildarleysi. Hann áréttar að hann sé ekki að svara fyrir neinn stjórnmálaflokk heldur Skúlagarð, félag sem Hrólfur sé stjórnarformaður í. 

Neyðarútgangur alltaf læstur

Sveinn Andri nefnir einnig að neyðarútgangi í húsinu hafi sífellt verið læst og lykill aðeins í vörslu Framsóknarmanna. „Það er hurð þarna í húsinu sem er hugsuð sem flóttaleið ef til bruna kemur eða slíks og þeir hafa alltaf læst þeirri hurð sem er stórfurðulegt, þrátt fyrir að slökkvilið hafi kveðið á um það að þessi hurð eigi alltaf að vera opin.”  

Þá tekur Sveinn dæmi um stíf samskipti við framkvæmdarstjóra Framsóknarflokksins. Rekstraraðilar barsins hafi ætlað að bera inn flennistórt og þungt borðtennisborð fyrir barinn en þeir hafi ekki fengið leyfi til að nota um rædda hurð. „Þá var þessi flóttaleið lokuð og þeir báðu um lykilinn, sem var á borðinu fyrir framan framkvæmdarstjóra Framsóknarflokksins,“ segir Sveinn og útskýrir að í kjölfarið hafi þurft að fara auka hring með borðið til þess að koma því inn í húsið.

Hrólfi er ekki kunnugt um að hurðin hafi alltaf verið læst. Róbert bendir á að hann eigi rétt á því að vera með lykil að hurðinni og stefnir á að láta skipta um lás í næstu viku og þá muni hann „að sjálfsögðu láta þá fá lykla líka.“

Leyfi fyrir merkingum

Þá hefur Róbert kallað eftir því að hinir eigendur hússins sýni fram á leyfi hvað varðar merkingar á húsinu. Skilti Framsóknarflokksins hangir fyrir ofan inngang hússins og kallar Róbert það „útlitslýti“ á húsinu. Hann hefur einnig kallað eftir að fá að sjá leyfi fyrir samkomusal á efstu hæð hússins. 

„Róbert hefur gert athugasemdir við merkingar utan á húsinu og óskað eftir því að fá að vita hvaða leyfi flokkurinn hefur fyrir þessum merkingum. Síðan hafa þeir lagt lagnir í öryggiskerfi hjá sér í gegn um hæðina að neðanverðu sem Róbert er ósáttur við. Einnig reka þeir einhverja veitingarþjónustu á efstu hæðinni og við höfum verið að kalla til þess hvaða leyfi þeir hafi til slíks. Þarna hefur verið skemmtanahald fram eftir nóttu með tilheyrandi umgengni. Það hafa verið ákveðnir árekstrar í gangi og núningar, þetta kemur manni undarlega fyrir sjónir að stjórnmálaflokkur skuli vera svona erfiður í samskiptum eins og raun ber vitni,” segir Sveinn Andri. 

Róbert tekur undir með lögmanni sínum og segir að leyfisskylt sé að hafa skilti utan á húsinu. Hann kveðst ekki hafa fengið nein svör við fyrirspurnum sínum, hvorki frá Hrólfi né Kristni.

Kannast ekki við veislusal

Hrólfur kannast ekki við að leigður sé út veislusalur í húsinu. „Það hefur verið stundum að menn hafa nokkrum sinnum verið með afmæli eða eitthvað slíkt sem þeir greiða fyrir, en það er ekki hægt að kalla þetta veislusali, þetta eru nokkur skipti á ári.“ 

Aðspurður um skilti Framsóknarflokksins framan á húsinu segist Kristinn ekki vera dómari um hvort það sé heimilt eða ekki. 

„Ef að menn telja að í öllum tilvikum þurfi samþykki allra alltaf fyrir því sem gerist í sameigninni, þá held ég að það sé einhver misskilningur. Það þýddi væntanlega líka að einhver annar eigandi sem ætlaði vera með starfsemi í húsinu, að þá þyrfti hann samþykki allra. Þannig er það náttúrulega ekki, á meðan nýting sameigenda er eins og almennt má ætla þá er sú nýting heimil.

„Ég hef ekki verið taka neinum málum varðandi einhver skiltamál. Ég er ekki dómari um það hvað má eða hvað má ekki, en það er ekki eins og þessi skilti hafi ekki verið þarna þegar hann kaupir og þó það verði eigandaskipti þá falla ekki niður allar heimildir, auðvitað kaupa menn þetta með þeim heimildum og þeim kvöðum sem hvíla á þessu.“

Þrátt fyrir samskiptaerfiðleika er stefnt á að barinn opni sem fyrst með aðgangi að klósetti fyrir fatlaða, flennistóru borðtennisborði, kokteilum og fallegri hönnun. Það verður því að öllum líkindum mikið fjör í húsinu þegar fram líða stundir.

View this post on Instagram

Do you play 🏓 ? Miami ping pong club opens soon!

A post shared by Miami Hverfisgata (@miami_hverfisgata) on