Nýgengi kórónuveirusmita í Minnesota er með því hæsta í Bandaríkjunum um þessar mundir og hefur heilbrigðisstarfsfólk ekki farið varhluta af því mikla álagi sem því fylgir.
Shirlee Xie, læknir á Hennepin-sjúkrahúsinu í Minneapolis, veitti ákveðna innsýn í störf heilbrigðisstarfsfólks í viðtali við CNN í dag. Viðtalið hefur vakið talsverða athygli enda barðist Shirlee við tárin þegar hún lýsti því hvernig síðasti vinnudagur hennar var.
Í viðtalinu sagðist hún hafa meðhöndlað fimm einstaklinga sem smitaðir voru af kórónuveirunni. Einn náði sér og var útskrifaður af sjúkrahúsi eftir að hafa legið inni í eina viku. Tveir aðrir voru sendir heim, þar á meðal 41 árs kona sem fær nú líknandi meðferð vegna banvænna veikinda.
Síðustu tveir sjúklingarnir voru hjón á níræðisaldri sem höfðu verið saman í 62 ár. Þau fengu að dvelja saman í herbergi en eiginkonan var töluvert veikari, að sögn Shirlee.
„Hún varð veikari og veikari og dó á sjúkrahúsinu. Eiginmaðurinn þurfti að horfa upp á hana deyja, óttann og sorgina sem fylgdi síðan,“ sagði hún meðal annars í viðtalinu meðan hún barðist við tárin.
„Það er ekki hægt að lýsa því hvernig það er fyrir okkur, sem sjá um umönnun þessa fólks, að sjá þessa þjáningu. Þetta var einn dagur í mínu starfi. Þetta er það sem kollegar mínir eru að upplifa á hverjum einasta spítala,“ sagði hún.
Eins og að framan greinir er nýgengi kórónuveirusmita í Minnesota með því hæsta í Bandaríkjunum um þessar mundir. Aðeins í Norður- og Suður Dakóta, Wyoming og Nýju Mexíkó er tíðnin hærri. Mikið álag er því á sjúkrahúsum í Minnesota eins og víðar í Bandaríkjunum.
„Þetta er ógnvekjandi því það er alltaf hægt að finna pláss fyrir sjúklingana. Við getum nálgast öndunarvélar og höfum aðgang að nauðsynlegum búnaði. En við getum ekki framleitt lækna, hjúkrunarfræðinga eða annað starfsfólk til að hugsa um fólkið.“