Ný­gengi kórónu­veiru­smita í Min­nesota er með því hæsta í Banda­ríkjunum um þessar mundir og hefur heil­brigðis­starfs­fólk ekki farið var­hluta af því mikla á­lagi sem því fylgir.

Shir­lee Xie, læknir á Hennepin-sjúkra­húsinu í Minnea­polis, veitti á­kveðna inn­sýn í störf heil­brigðis­starfs­fólks í við­tali við CNN í dag. Við­talið hefur vakið tals­verða at­hygli enda barðist Shir­lee við tárin þegar hún lýsti því hvernig síðasti vinnu­dagur hennar var.

Í við­talinu sagðist hún hafa með­höndlað fimm ein­stak­linga sem smitaðir voru af kórónu­veirunni. Einn náði sér og var út­skrifaður af sjúkra­húsi eftir að hafa legið inni í eina viku. Tveir aðrir voru sendir heim, þar á meðal 41 árs kona sem fær nú líknandi með­ferð vegna ban­vænna veikinda.

Síðustu tveir sjúk­lingarnir voru hjón á ní­ræðis­aldri sem höfðu verið saman í 62 ár. Þau fengu að dvelja saman í her­bergi en eigin­konan var tölu­vert veikari, að sögn Shir­lee.

„Hún varð veikari og veikari og dó á sjúkra­húsinu. Eigin­maðurinn þurfti að horfa upp á hana deyja, óttann og sorgina sem fylgdi síðan,“ sagði hún meðal annars í við­talinu meðan hún barðist við tárin.

„Það er ekki hægt að lýsa því hvernig það er fyrir okkur, sem sjá um um­önnun þessa fólks, að sjá þessa þjáningu. Þetta var einn dagur í mínu starfi. Þetta er það sem kollegar mínir eru að upp­lifa á hverjum einasta spítala,“ sagði hún.

Eins og að framan greinir er ný­gengi kórónu­veiru­smita í Min­nesota með því hæsta í Banda­ríkjunum um þessar mundir. Að­eins í Norður- og Suður Dakóta, Wyoming og Nýju Mexíkó er tíðnin hærri. Mikið álag er því á sjúkra­húsum í Min­nesota eins og víðar í Banda­ríkjunum.

„Þetta er ógn­vekjandi því það er alltaf hægt að finna pláss fyrir sjúk­lingana. Við getum nálgast öndunar­vélar og höfum að­gang að nauð­syn­legum búnaði. En við getum ekki fram­leitt lækna, hjúkrunar­fræðinga eða annað starfs­fólk til að hugsa um fólkið.“