Rannsókn lögreglu á manndrápi í Barðavogi er á lokastigi og býst lögregla við því að málið verði sent til saksóknara mögulega í næstu viku.

Karlmaður á fimmtugsaldri fannst látinn á heimili sínum 4. júní en nágranni hans, rúmlega tvítugur karlmaður, er grunaður um að hafa orðið honum að bana. Ungi maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi.

„Beðið er eftir utanaðkomandi gögnum sem ég reikna með að muni koma í þessari eða næstu viku.“

Bíða eftir utanaðkomandi gögnum

Rannsókn manndrápsins er á lokastigi. Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Fréttablaðið að hann eigi von á utanaðkomandi gögnum tengdum málinu, annað hvort í þessari eða næstu viku.

„Rannsókn málsins miðar vel en beðið er eftir utanaðkomandi gögnum sem ég reikna með að muni koma í þessari eða næstu viku. Að því loknu verður málið sent til ákærusviðs,“ segir Margeir í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.