Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja, segir að rannsókn fyrirtækisins á starfseminni í Namibíu miði ágætlega og megi búast við niðurstöðum á nýju ári. Þetta kemur fram í jólakveðju sem Björgólfur sendi á starfsmenn Samherja í dag.

Starfsmenn Samherja vilja að fyrirtækið svari ásökunum um mútuþægni af meiri krafti ef marka má bréf Björgólfs.

„Ég veit að sum ykkar vildu að Samherji svaraði ásökunum á hendur fyrirtækinu af meiri krafti,“ segir í bréfinu.

„Ekki velkjast í neinum vafa um að við munum leiðrétta allar rangfærslur um félagið. Við erum rétt að byrja.“

Björgólfur segir að Samherjaskjölin hafi ekki haft teljandi áhrif á rekstur fyrirtækisins og sé það starfsmönnunum fyrst og fremst að þakka. Hann segir vöxt í sölunni og veiðar og vinnsla gangi vel. Björgólfur segir í jólakveðjunni að samstarfsaðilar Samherja heima og erlendis standi með félaginu.

„Það er baráttuhugur í stjórnendum Samherja á öllum vígstöðum og við erum sannfærð um að framtíð fyrirtækisins sé björt,“ skrifar Björgólfur.