„Lyfja­gjöfin hefur bara tekist mjög vel og sýnt mikinn árangur,“ segir Þórunn Egils­dóttur al­þingis­maður í sam­tali við Frétta­blaðið. Hún hefur verið í veikinda­fríi frá þing­störfum undan­farna mánuði eftir að hún greindist með krabba­mein í brjósti snemma árs.

Þórunn birti færslu á Face­book í morgun þar sem hún sagði að lukkan héngi yfir henni. Í dag fagnar hún 32 ára brúð­kaups­af­mæli með eigin­manni sínum, Frið­birni Hauki Guð­munds­syni.

„Saman fögnum við því að boð­flennan hefur yfir­gefið fé­lags­skapinn,“ bætti hún við. Þórunn opnaði sig um veikindin í ítar­legu við­tali við Frétta­blaðið fyrr á árinu. Þar sagðist hún tala um æxlið sem „boð­flennuna“.

Í sam­tali við blaða­mann segir hún á­nægju­legt hversu vel hún hefur svarað lyfa­gjöfinni en þeirri með­ferð lauk í gær. „En fram­undan er langt og mikið ferli,“ segir hún. Nú taki við að­lögunartími eftir síðustu lyfja­gjöfina en eftir það mun hún gangast undir fleyg­skurð og loks geisla­með­ferð.

„En þetta er mjög á­nægju­legur á­fangi og ég er mjög þakk­lát fyrir hvað ég svara þessu vel. Við erum bara að fagna því og höldum ó­trauð á­fram í þetta verk­efni sem er fjarri því að vera lokið,“ segir Þórunn að lokum.