Stjórnmál Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, vill ekki svara hvort til greina komi að hann og Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, skipti með sér borgarstjórastólnum á kjörtímabilinu.

Með öllu er óljóst hvort Einar Þorsteinsson hallar sér til hægri eða til vinstri við myndun nýs meirihluta í borginni. Framgangur annarra flokka er í höndum Einars en hann átti fundi í gær með að minnsta kosti fjórum oddvitum annarra flokka í borgarstjórn, þar á meðal Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins, og Degi. Fundur Dags og Einars fór fram á leynilegum stað undir kvöld.

„Málefnalega snýst þetta um stóru málin, Borgarlínu og samgöngusáttmála,“ segir Dagur B. Eggertsson sem hrósar Einari.

„Hann er að gera rétt með því að spjalla við alla,“ segir Dagur.

Einar gæti myndað meirihluta með Samfylkingu og Pírötum með eða án Viðreisnar. Hann sagði á Fréttavaktinni á Hringbraut í gær að Framsóknarflokkurinn væri með fjóra fulltrúa í borginni með mjög skýrt um­boð til pólitískrar for­ystu. Einar hefur ef til vill einnig val um myndun meirihluta til hægri með Sjálfstæðismönnum, Kolbrúnu Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins, og Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, fulltrúa Viðreisnar.

Fréttablaðið spurði Dag hvort hann gæti hugsað sér að gefa frá sér borgarstjórastólinn í meirihlutasamstarfi með Framsóknarflokknum.

„Ég hef í fyrri viðræðum aldrei gert þá kröfu,“ svarar Dagur. Þá vill hann ekki svara hvort til greina komi að þeir Einar deili borgarstjórastólnum á kjörtímabilinu.

„Það er alveg ótímabært að ræða það,“ segir Dagur, enda séu málefnin í fyrsta sæti, síðan komi verkaskipting.

Hildur Björnsdóttir segir að það væri ótrúverðugt hjá Framsókn ef flokkurinn hygðist mynda nýjan meirihluta með gamla meirihlutanum, þar sem Framsókn talaði í kosningabaráttunni fyrir breytingum.

Spurð hvort hún geri kröfu um borgarstjórastól ef flokkurinn myndar meirihluta með Framsóknarflokknum og fleiri flokkum segir Hildur að hefð sé fyrir að oddviti stærsta flokksins fái borgarstjórastól.