Fanndís Birna Logadóttir
fanndis@frettabladid.is
Fimmtudagur 22. október 2020
06.00 GMT

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, mætast í annað sinn í kappræðum í kvöld. Um er að ræða síðustu kappræðurnar fyrir komandi forsetakosningar, þann 3. nóvember.

Áætlað var að kappræðurnar yrðu þrjár talsins en eftir að Trump greindist með COVID-19 og neitaði að taka þátt í kappræðum með fjarfundarbúnaði var hætt við kappræðurnar sem áttu að fara fram í síðustu viku.

Kappræðurnar kvöldsins fara fram Nashville í Tennessee klukkan 1 eftir miðnætti að íslenskum tíma en baráttan við COVID-19, kynþáttamisrétti, loftslagsbreytingar og leiðtogahæfni verða meðal helstu umræðuefna kvöldsins. Umræðustjóri verður Kristen Welker frá NBC News en kappræðurnar verða með sama sniði og þær fyrstu.

Metfjöldi fólks hefur þegar greitt atkvæði í kosningunum. Nú hafa hátt í 40 milljón manns kosið en alls kusu tæplega 140 milljón manns í heildina árið 2016. Þannig hafa margir þegar ákveðið sig en Biden og Trump keppast nú um þá frambjóðendur sem eru óákveðnir.

Ólíkir frambjóðendur

Óháð því hver vinnur er ljóst að annað hvort Trump eða Biden verður elsti sitjandi forseti í sögu Bandaríkjanna. Biden fæddist þann 20. nóvember árið 1942 í Pennsylvaníu og tæpum fjórum árum síðar fæddist Trump, þann 14. júní 1946, í New York. Því verða þeir 78 ára og 74 ára þegar nýr forseti tekur við embætti en þegar Trump tók við embætti 2016 var hann elsti forsetinn í sögunni.

Uppvaxtarár Trump og Biden voru heldur ólík, Biden var sonur verkamanns í Scranton og hefur Biden þakkað föður sínum fyrir að innræta honum dugnað og seiglu. Faðir Trumps var aftur á móti farsæll kaupsýslumaður í Queens og sendi hann son sinn í herskóla til þess að kenna honum aga.

Nám og störf

Bæði Trump og Biden útskrifuðust úr háskóla á sjöunda áratugnum, Biden árið 1965, með gráðu í sögu og stjórnmálafræði frá Háskólanum í Delaware, og Trump árið 1968, með gráðu í hagfræði frá Warton School of Finance við Háskólann í Pennsylvaníu. Biden útskrifaðist síðan með gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Syracuse árið 1968. Trump var sagður afbragðsnemandi í skóla á meðan Biden var í besta falli sæmilegur námsmaður.

Eftir háskóla fóru þeir sinn í hvora áttina. Trump fór að vinna hjá fasteignafélagi föður síns og tók þar við taumunum snemma á áttunda áratugnum. Í kjölfarið stofnaði hann sín eigin fyrirtæki sem báru Trump nafnið, opnaði spilavíti og hótel, stóð að sjónvarpsverkefnum á borð við The Apprentice og Miss Universe, og opnaði jafnvel háskóla sem bar fjölskyldunafnið.

Biden aftur á móti starfaði í skamman tíma sem saksóknari áður en hann ákvað að snúa sér að stjórnmálum. Árið 1972 hlaut hann kjör sem þingmaður öldungadeildar Bandaríkjaþings fyrir Delaware-ríki og varð þar með fimmti yngsti öldungadeildarþingmaðurinn í sögu Bandaríkjanna. Hann hlaut endurkjör sex sinnum og þegar hann lét af störfum árið 2009 hafði hann setið lengur en allir aðrir þingmenn í sögu ríkisins.

Donald Trump árið 1976 og Joe Biden árið 1973.
Fréttablaðið/Getty

Fjölskylda og harmleikir

Donald Trump á fjögur systkini, þar af tvær eldri systur, einn eldri bróður og einn yngri bróður. Báðir bræður hans eru þó látnir í dag en eldri bróðir hans, Fred Trump Jr., lést árið 1981 eftir langa baráttu við alkóhólisma. Yngri bróðir hans, Robert Trump, lést síðan þann 15. ágúst síðastliðinn en hann hafði fengið heilablæðingu skömmu áður.

Sjálfur á Trump fimm börn, þrjá syni og tvær dætur, en hann hefur verið giftur þrisvar sinnum. Árið 1977 giftist hann fyrstu eiginkonu sinni, Ivana Zelníčková Winklmayr, en þau skildu árið 1992. Saman eiga þau Ivanka Trump, Donald Trump Jr. og Eric Trump. Hann giftist síðan bandarísku leikkonunni Marla Maples árið 1993 en þau skildu árið 1999. Saman eiga þau dótturina Tiffany Trump. Að lokum giftist hann slóvenska módelinu Melania Knauss árið 2005 og eiga þau soninn Barron Trump saman.

Trump með börnunum sínum fimm og Melaniu Trump árið 2016.
Fréttablaðið/Getty

Joe Biden á þrjú systkini, þar af eina yngri systur og tvo yngri bræður. Sjálfur hefur Biden átt fjögur börn, þar af þrjú með fyrstu eiginkonu sinni, Neilia Hunter. Biden og Neilia giftust árið 1966 en aðeins einum mánuðum eftir að Biden var kjörinn öldungadeildarþingmaður árið 1972 lenti fjölskyldan í alvarlegu bílslysi þar sem Neilia og dóttir þeirra, hin þrettán mánaða gamla Naomi, létust.

Synir þeirra, Beau og Hunter, særðust alvarlega við áreksturinn en lifðu af. Fimm árum síðar, árið 1977, giftist Biden Jill Jacobs og eru þau enn saman í dag en saman eiga þau eina dóttur, Ashley. Fjölskyldan varð fyrir öðru áfalli árið 2015 þegar eldri sonur Biden, Beau Biden, lést úr heilakrabbameini aðeins 46 ára að aldri.

Biden með börnunum sínum þremur og Jill Biden árið 2009.
Fréttablaðið/Getty

Stjórnmálaferill Trumps

Trump skráði sig í Repúblikanaflokkinn árið 1987 en hann hefur nokkrum sinnum skipt um flokk frá þeim tíma. Þannig var hann til að mynda skráður í Demókrataflokkinn árið 2001, ári eftir að hann hafði boðið sig fram til forseta sem óháður aðili.

Hann var síðan aftur skráður sem óháður aðili árið 2011 en sneri að lokum aftur til Repúblikanaflokksins árið 2012 til þess að lýsa yfir stuðningi við framboð Mitt Romney til forseta. Romney laut þó í lægra haldi fyrir Barack Obama það ár. Trump sóttist eftir tilnefningu Repúblikana árið 2016 og keppti þar við þaulreynda stjórnmálamenn flokksins.

Trump tók við embætti sem 45. forseti Bandaríkjanna árið 2017.
Fréttablaðið/Getty

Barátta Trumps bar að lokum árangur og var hann tilnefndur sem forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins. Hann hafði betur gegn Hillary Clinton í forsetakosningunum í nóvember árið 2016 og tók við embætti sem 45. forseti Bandaríkjanna þann 20. janúar 2017.

Þegar Trump tók við af Obama lagði hann mikla áherslu á efnahagsmál og skattalækkanir, en hann hefur einnig mikið rætt um innflytjendur. Þá hefur hann lagt mikinn þunga á að fella niður ýmsar ákvarðanir forvera síns og almennt farið á móti straumnum í ýmsum málum. Hann hefur átt stormasaman feril í Hvíta húsinu, þar sem starfsmannavelta hefur verið mikil og Repúblikanar hafa oft verið ósammála forsetanum.

Demókratinn Biden

Biden hefur verið skráður í Demókrataflokkinn frá upphafi og sem þingmaður lagði hann mikla áherslu á utanríkissamskipti, endurbætur í réttarkerfinu, og mótun eiturlyfjastefnu. Árið 1988 sóttist hann eftir tilnefningu Demókrataflokksins til forseta Bandaríkjanna en neyddist til að draga framboð sitt til baka skömmu síðar eftir að hann var sakaður um að hafa stolið hluta úr framboðsræðu sinni frá öðrum stjórnmálamanni.

Árið 2008 gerði hann aðra atlögu að tilnefningunni en framboð hans fór aldrei á flug þannig hann dró það til baka. Þegar Barack Obama tryggði sér tilnefningu Demókrata sama ár tilkynnti hann að Biden kæmi til með að vera varaforsetaefni hans. Obama hafði betur gegn John McCain í forsetakosningunum í nóvember 2008 og tók Obama við embætti 44. forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar 2009 á meðan Biden tók við embætti 47. varaforseta Bandaríkjanna.

Biden tók við embætti sem 47. varaforseti Bandaríkjanna árið 2009.
Fréttablaðið/Getty

Hann ákvað að sækjast ekki eftir tilnefningu Demókrata til forseta árið 2016 þar sem hann var enn að syrgja son sinn, Beau Biden, sem lést úr heilakrabbameini árið 2015. Hann tilkynnti þó í fyrra að hann kæmi til með að bjóða sig fram í kosningunum í ár og tryggði hann sér tilnefningu Demókrata til forseta síðastliðinn ágúst.

Biden hefur alla tíð beitt sér fyrir bættum utanríkissamskiptum, endurbætum í réttarkerfinu, og mótun eiturlyfjastefnu. Í seinni tíð hefur hann lagt mikla áherslu á heilbrigðis- og loftslagsmál, en hann fór sérstaklega að einbeita sér að heilbrigðismálum eftir dauða sonar hans. Þá hefur hann gagnrýnt Trump og ákvarðanir hans harðlega í gegnum tíðina en þeir hafa lengi eldað grátt silfur saman.

Hneyksli og misferli

Því verður seint haldið fram að frambjóðendurnir í ár séu fullkomnir og sýna margar kannannir að fleiri séu að kjósa gegn öðrum þeirra, frekar en með þeim. Eflaust spilar þar inn í að bæði Trump og Biden hafa orðið uppvísir að misferli í starfi, sem og í einkalífi sínu, en þeir hafa til að mynda báðir verið sakaðir um kynferðislega áreitni. Þá hefur Biden verið sakaður um ritstuld í tvígang, annars vegar í námi og hins vegar í starfi.

Donald Trump á þó líklegast stærsta hneykslismálið en þremur árum eftir að hann var kosinn varð hann þriðji forsetinn í sögu Bandaríkjanna til að vera kærður til embættismissis eftir að hafa sett skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð til Úkraínu. Þá hafa fjármál hans einnig verið mikið í umræðunni en hann hefur ítrekað neitað að birta skattframtöl sín og greindi New York Times nýlega frá því að hann hafi aðeins greitt 750 dollara í tekjuskatt árið 2016.

Sögulegar kosningar

Það kemur ekki á óvart að eitt helsta hitamálið fyrir komandi forsetakosningar snúi að efnahags- og heilbrigðismálum í skugga kórónaveirufaraldursins. Eins og staðan er í dag eru hafa rúmlega 8,3 milljón manns smitast af veirunni og rúmlega 221 þúsund látist úr COVID-19 í Bandaríkjunum. Milljónir manna hafa misst vinnuna og þrátt fyrir að staðan hafi skánað á síðustu mánuðum mælist enn tæplega átta prósent atvinnuleysi.

Þá hefur mikið verið rætt um kynþáttamisrétti og ofbeldi lögreglu í garð svartra. Síðustu mánuði hafa fjölmargir mótmælt víðs vegar í Bandaríkjunum eftir að George Floyd lést í höndum lögreglu fyrr á árinu. Bent hefur verið á ýmis önnur sambærileg atvik og hafa mótmælendur krafið stjórnvöld um endurbætur.

Önnur mál hafa einnig verið áberandi síðustu mánuði en þar má til að mynda nefna loftslagsmál, Hæstarétt Bandaríkjanna, framkvæmd kosninganna, hlutverk varaforseta, og staða Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi.

Líkt og áður kom fram eru tólf dagar í að kjördagur renni upp í Bandaríkjunum, þann 3. nóvember næstkomandi, en vegna kórónaveirufaraldursins hafa flest ríki rýmkað skilyrðin fyrir því að fólk fái að kjósa utankjörfundar, til að mynda með póstatkvæðum. Þar sem misjafnt er eftir ríkjum hvenær slík atkvæði þurfa að berast er óljóst hvenær endanleg úrslit gætu legið fyrir.

Það er nokkuð ljóst að frambjóðendurnir sem sækjast nú eftir embætti forseta séu á öndverðum meiði þegar kemur að hinum ýmsu málefnum og má gera ráð fyrir því að baráttan verði hörð allt fram að síðustu stundu. Áhugavert verður að fylgjast með dögunum eftir kjördag og hvaða áhrif úrslitin hafa á bandarískt samfélag sem er þegar verulega klofið.

Athugasemdir