Donald Trump Bandaríkjaforseti tilnefndi fyrr í kvöld dómarann Amy Coney Barrett til Hæstaréttar Bandaríkjanna og mun hin 48 ára Barrett því mögulega taka sæti hæstaréttardómarans Ruth Bader Ginsburg, sem lést fyrir rúmri viku síðan. Repúblikanar hafa lýst yfir vilja til að samþykkja tilnefninguna sem fyrst.

Verði Barrett samþykkt sem dómari við Hæstarétt verður hún fimmta konan til að gegna starfi dómara við réttinn, og jafnframt sú yngsta. Þá munu sex dómarar tilheyra íhaldssamari armi réttsins á móti þremur sem tilheyra þeim frjálslyndari.

Að því er kemur fram í frétt AP News um málið mun dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings taka tilnefninguna fyrir á sérstökum staðfestingarfundum (e. comfirmation hearings) um miðjan október. Þannig myndi málflutningur hefjast 12. október og ljúka 15. október.

Þannig freista Repúblikanar því að staðfesta tilnefninguna innan öldungadeildarinnar fyrir forsetakosningarnar 3. nóvember en þar sem Repúblikanar eru með meirihluta innan deildarinnar ætti það að reynast auðvelt.

Hrósa Trump fyrir valið

Repúblikanar keppast nú við að lýsa yfir stuðningi sínum við Barrett á samfélagsmiðlum. Meðal þeirra eru til að mynda öldungadeildarþingmennirnir Ted Cruz og Mitch McConnell, fulltrúadeildarþingmaðurinn Kevin McCarthy, ríkisstjóri Alaska, Mike Dunleavy, og ráðherrann Ben Carson.

„Það er engin spurning um að Amy Coney Barrett er hæfasta manneskjan til að halda uppi stjórnarskránni. Öldungadeildin ætti að staðfesta hana fljótlega,“ sagði McCarthy, sem er leiðtogi Repúblikana innan fulltrúadeildarinnar. „Trump gæti ekki hafa tekið betri ákvörðun,“ sagði McConnell, sem er leiðtogi Repúblikana innan öldungadeildarinnar.

Demókratar ósáttir

Demókratar og aðrir frjálslyndir stjórnmálamenn hafa þó gagnrýnt ákvörðunina harðlega og krafist þess að öldungadeildin bíði með að staðfesta tilnefninguna þar til eftir forsetakosningarnar. Þá hafa þau sakað Repúblikana um hræsni fyrir að segjast vilja flýta tilnefningunni en sama staða var uppi á teningnum árið 2016 þegar Obama tilnefndi nýjan dómara eftir andlát Antonin Scalia.

Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata fyrir komandi kosningar, tjáði sig um málið stuttu eftir tilnefninguna þar sem hann vísaði til þess að Barrett hafi í gegnum tíðina verið á móti núverandi heilbrigðistryggingarkerfi Bandaríkjanna, Affordable Care Act. „Kjósið eins og heilbrigðisþjónusta ykkar sé á atkvæðaseðlinum – því hún er það,“ sagði Biden.

Trump sé að leggja líf fólks í hættu

Fleiri stjórnmálamenn úr röðum Demókrata hafa tekið undir það en Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata innan öldungadeildarinnar sagði að atkvæði fyrir Barrett væri atkvæði gegn heilbrigðisþjónustu sem milljónir manns þurfa á að halda á tímum kórónaveirufaraldursins.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, sagði enn fremur að Trump hafi lengi unnið að því að rífa niður heilbrigðiskerfið og að með ákvörðuninni væri hann að leggja líf Bandaríkjamanna í hættu. Þá hét hún því að bandaríska þjóðin myndi muna eftir ákvörðuninni fyrir kosningarnar.

Óttast um réttindi kvenna

Það eru þó ekki aðeins heilbrigðismál sem Demókratar telja að ákvörðunin muni hafa áhrif á heldur telja margir fóstureyðingar, og réttur kvenna til þeirra, séu í húfi en Barrett er sjálf harður andstæðingur fóstureyðinga.

Meðal þeirra sem óttast að réttur kvenna til fóstureyðinga sé í hættu eru Adam Schiff, formaður leyniþjónustunefndar fulltrúadeildarinnar, og öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren, en þau óttast að ef sex dómarar við réttinn verði íhaldssamir muni þau snúa við Roe v. Wade lögunum svokölluðu.

Baráttan hafin

Það er því ljóst að tilnefning Barrett verði ein sú umdeildasta í sögu Bandaríkjanna, ekki aðeins þar sem dómarar verða fleiri frá íhaldssamari armi réttarins, heldur einnig þar sem svo stutt er í kosningar. Óvíst er hvaða áhrif það mun hafa ef Barrett verður skipuð í dómarasæti.

Það verður því áhugavert að sjá hvað gerist næstu daga en búast má við að barist verði um tilnefninguna allt fram til síðasta dags.