Prófkjörsbarátta meðal Sjálfstæðismanna í Reykjavík er farin af stað. Allir þingmenn kjördæmanna verða í kjöri en fáir aðrir hafa lýst áhuga á framboði.

Æsilegasta prófkjörs­baráttan í aðdraganda komandi kosninga verður án efa sú sem nú er hafin hjá Sjálfstæðismönnum í Reykjavík.

Guðlaugur Þór Þórðarson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherrar flokksins í kjördæminu, hafa bæði lýst því yfir að þau sækist eftir fyrsta sæti en venju samkvæmt er eitt prófkjör haldið fyrir bæði Reykjavíkurkjördæmin.

Ólöf sigraði síðasta prófkjör

Fimm ár eru síðan síðast var haldið prófkjör í flokknum fyrir alþingiskosningar en stillt var á lista fyrir kosningarnar 2017 vegna þess hve brátt þær bar að.

Í prófkjörinu 2016 bar Ólöf Nordal heitin sigur úr býtum og því á enginn þann sigur að verja í prófkjörinu sem fer fram 4. til 5. júní næstkomandi.

Ólöf Nordal heitin sigraði í síðasta prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fór fram árið 2016 og því á enginn sigur að verja. Margir vilja fylla hennar skarð og mikil samkeppni er um forystusæti í borgarkjördæmunum.
frettabladid.is/valli

Guðlaugur Þór var í öðru sæti á eftir Ólöfu í síðasta prófkjöri og leiddi lista flokksins í Reykjavík suður en Áslaug Arna var í öðru sæti á sama lista. Af þeim sem Fréttablaðið hefur rætt við undanfarna daga þykir flestum líklegast að þau nái efstu tveimur sætunum og leiði sitt kjördæmið hvort. Þó er hvorki hægt að afskrifa Brynjar Níelsson, sem mun líklega sækjast eftir 2. sæti í prófkjörinu, né Sigríði Á. Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra.

Spenna um framboð Sigríðar

Sigríður hefur enn ekki lýst yfir framboði og töluverð spenna ríkir um hvort hún muni blanda sér í baráttuna um 1. sætið eða veðja frekar á öruggt þingsæti og gefa kost á sér ofarlega á lista.

Brynjar náði þriðja sæti í prófkjörinu 2016 en Sigríður hafnaði hins vegar í 5. sæti og varð undir í baráttunni við bæði Brynjar og Áslaugu Örnu sem varð í 4. sæti. Brynjar vék hins vegar fyrir Sigríði þegar stillt var á lista ári síðar og skipaði hún 1. sæti í Reykjavík norður en Brynjar var í 2. sæti í því kjördæmi.

Töluverð spenna ríkir um hvort Sigríður Andersen muni blanda sér í baráttuna um 1. sætið eða veðja frekar á öruggt þingsæti og gefa kost á sér ofarlega á lista.

Spennan um framboð Sigríðar og gengi hennar í prófkjörinu lýtur einnig að því hvernig flokksmenn meta störf hennar, bæði í tengslum við Landsréttarmálið, sem varð til þess að hún sagði af sér ráðherraembætti, en ekki síður einarða afstöðu hennar til sóttvarnaaðgerða stjórnvalda og viðbragða við heimsfaraldrinum.

Þá má ætla að niðurstaðan í þessu spennandi prófkjöri muni varpa ljósi á hug reykvískra Sjálfstæðismanna til kynslóðaskipta í flokknum. Guðlaugur og Birgir Ármannsson, sem einnig verður í kjöri, hafa verið lengst allra Sjálfstæðismanna á þingi, frá árinu 2003.

Sem utanríkisráðherra hefur Guðlaugur Þór ekki verið mikið í framlínunni í ríkisstjórninni en er hins vegar svo lánsamur að vera gestgjafi stórveldanna á fundi Norðurskautsráðsins aðeins tveimur vikum fyrir prófkjörið.

Áslaug Arna er enn ung og upprennandi þrátt fyrir að hafa gegnt ráðherraembætti hálft yfirstandandi kjörtímabil. Hún þykir bæði dugleg og fylgin sér.

Birgir Ármannsson hefur ekki enn lýst yfir framboði en hann bauð sig fram í 2. til 4. sæti í síðasta prófkjöri. Hann hafnaði í því sjötta. Það dugði honum til þingsætis en hann hefur í aðdraganda undanfarinna kosninga verið í baráttusæti flokksins og kosninganætur iðulega spennandi á hans heimili.

Auk þingmannanna fimm sem fullvíst þykir að verði allir í kjöri, hefur Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarkona Guðlaugs Þórs, þegar lýst yfir framboði. Hún gerði það með nokkrum hvelli um síðustu helgi, en þá birtust opnuauglýsingar um framboð hennar bæði í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Hún sækist eftir 3. sæti og nái hún því mun hún verma 2. sætið í öðru hvoru kjördæminu.

Fullvíst þykir einnig að Hildur Sverrisdóttir, aðstoðarkona Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, taki þátt með von um öruggt þingsæti. Hún tók sæti á þingi á síðasta kjörtímabili þegar Ólöf Nordal lést en hélt því ekki eftir síðustu kosningar.

Diljá Mist er því ein þeirra frambjóðenda sem nefndir hafa verið sem ekki hefur tekið sæti á Alþingi. Miðað við spennuna sem ríkir um prófkjörið og harða baráttu um forystusætin hlýtur að koma nokkuð á óvart hve lítil þátttakan er. Líklegt verður að telja að 7. og 8. sætið gefi í það minnsta von um varaþingmannssæti en hér hafa aðeins sjö kandídatar verið nefndir til sögunnar.

Enn er þó nægur tími til stefnu fyrir nýtt og upprennandi fólk til að freista gæfunnar. Framboðsfrestur í prófkjörið rennur út næsta föstudag.