„Við sjáum að fólk um allan heim er að sækja í skjól verkalýðsfélaga um styrk og stuðning. Þannig að verkalýðsbaráttan hefur í rauninni aldrei verið mikilvægari en nú. En svo sjáum við líka stöðu einyrkja og þeirra sem eru í ótryggum ráðningarsamböndum. Það er fólkið sem er að fara verst út úr þessu. Þörfin fyrir kjarasamninga og góð vinnuskilyrði hefur þess vegna eiginlega aldrei verið sýnilegri en núna,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ.

Vegna samkomubanns verður ekki hefðbundin 1. maí dagskrá og er það í fyrsta sinn síðan 1923 að launafólk á Íslandi getur ekki komið saman til að berjast fyrir kröfum sínum. Þess í stað verður haldin sérstök skemmti- og baráttusamkoma í Hörpu sem verður sjónvarpað á RÚV klukkan 19.40 í kvöld.

„Við ákváðum að það væri mikilvægt að bjóða upp á einhvern léttleika á þessum erfiðu tímum í bland við barátturæður og framtíðarsýn.“

Baráttudagur verkalýðsins fer nú fram í skugga sívaxandi atvinnuleysis og fjölda hópuppsagna.

„Þetta eru ein viðbjóðslegustu mánaðamót sem við höfum upplifað. Við eigum hins vegar svolítið erfitt á þessum tímapunkti með að meta hina raunverulegu stöðu. Við vitum ekki enn hvert raunverulegt atvinnuleysi er en það er svakalegt.“

Þar vísar Drífa meðal annars til þess að ekki liggi endanlega fyrir hversu margir sem misst hafi vinnuna á síðustu dögum hafi verið á hlutabótaleiðinni. Þá eigi eftir að koma í ljós hvaða fyrirtæki muni fara í gang með starfsemi sína nú í maí sem hafi ekki getað starfað vegna samkomubanns. Verið sé að greiða himinháar upphæðir úr ríkissjóði til að styðja við atvinnulífið. Það þurfi að vera alveg skýrt að í þeim tilvikum sem ríkið borgar hluta launa á uppsagnarfresti komi fólk aftur inn í fyrirtækin á sömu kjörum þegar staðan verður betri.

„Þetta ástand má ekki verða til þess að lækka laun fólks til frambúðar. Ef það verður ekki haldið rétt á spilunum gætum við verið að tala um einhverjar mestu launalækkanir sem um getur,“ segir Drífa.

Þá bendir hún á að samkvæmt greiningum ASÍ sé helsta ógnin sem heimilin standi frammi fyrir tekjufall. Útgjöld séu ekki endilega að hækka eða aukast.

„Það styður mjög við þá kröfu okkar að lengja tímann sem fólk getur verið á tekjutengdum bótum. En það þarf líka að hækka grunn­atvinnuleysisbæturnar.“

Ástandið kalli á heildarendurskoðun á grunnkerfum

„Við getum ekki komið saman og sýnt í verki samtakamátt og samstöðu hreyfingarinnar að þessu sinni. Við verðum að nota aðrar leiðir til þess,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

„En þetta eru ógnvænlegir tímar. Við höfum í sjálfu sér aldrei upplifað aðra eins daga eins og þá allra síðustu, aldrei séð annað eins atvinnuleysi. Þetta þýðir líka að álagið á stéttarfélögin er búið að vera gríðarlega mikið.“

Ragnar Þór

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR

Ragnar segir að áskorunin sem verkalýðshreyfingin standi nú frammi fyrir sé án fordæma. „Hvernig tryggjum við afkomu og uppbyggingu samfélagsins á þeim gildum og forsendum sem við erum að setja sem verkalýðshreyfing? Það verður heljarinnar verkefni en ég er í sjálfu sér ekkert hræddur við það.“

Ástandið þýði einfaldlega að ráðast þurfi í heildarendurskoðun á grunnkerfum á borð við lífeyrissjóði og almannatryggingar.

„Við þurfum að hugsa hvernig við ætlum að takast á við það að hér tapist mögulega þúsundir starfa sem munu ekki endilega koma til baka. Þá þurfum við að endurskoða hvernig þessi grunnframfærslukerfi vinna saman og eru byggð upp.“

Láglaunakona á lífeyri fái nú 56 prósent af launum sem hún hafi aldrei getað lifað á. Bankastjórinn fái hins vegar 56 prósent af ofurlaunum. „Þarna þurfum við að hugsa hvort við þurfum að endurskoða lífeyriskerfið frá grunni svo fólk geti lifað á grunnframfærslu.“

Auk þess að horfa til framtíðar þurfi að slökkva elda. Lykilverk­efnið nú sé að verja heimilin. Þar vill Ragnar Þór sjá þak á vísi­tölu eða hún verði fryst með ein­hverjum hætti svo leiga og lán hækki ekki með verðbólgu.

„Nú koma sérfræðingar fram og segja að það sé ekkert í pípunum að verðbólga fari af stað. Þess þá heldur ætti að vera minna mál að veita fólki þessa tryggingu.“

Þá segist hann hafa áhyggjur af stöðu lífskjarasamnings enda stjórnvöld enn ekki staðið við gefin loforð í tengslum við hlutdeildarlán og afnám verðtryggingar.

Ragnar segir einnig að tryggja þurfi hlut almennings í þeim kostnaðarsömu úrræðum sem stjórnvöld séu að fara í, upp á 300 milljarða.

„Þetta er reikningur sem skatt­greið­endur munu þurfa að standa skil á. Mikið af þeim úrræðum sem við erum að berjast fyrir kosta ríkið sama og ekki neitt. Við þurfum að tryggja að fólkið verði ekki skilið eftir eins og eftir hrun. Það mun ekki gerast á okkar vakt og við erum tilbúin að beita öllum ráðum til að koma í veg fyrir það.“

Förum ekki aftur í sama samfélagið

„Þetta verður vissulega erfitt næstu mánuði en það eru líka tækifæri í stöðunni. Ég held við förum ekki aftur í sama samfélagið sem var. Þess vegna er yfirskrift dagsins „Byggjum réttlátt þjóðfélag“, segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Hún segir að þótt það hafi verið tiltölulega mikill jöfnuður á Íslandi miðað við önnur lönd sé enn verk að vinna.

Sonja Ýr.jpg

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

„Fyrsta skrefið er auðvitað að verja afkomu fólks í þessum aðstæðum og síðan getum við séð hvar sóknarfærin eru. Við teljum mjög mikilvægt að byggja upp fleiri undirstöðuatvinnugreinar en við erum með núna, þannig að hægt sé að stuðla að meira jafnvægi.“

Góðu fréttirnar séu þær að Ísland virðist vera að koma nokk­uð vel út úr faraldrinum með till­iti til heilsu­fars og vonandi verði ekki bakslag í því. „Á móti er nið­ur­sveiflan dýpri en við von­uð­umst til í upphafi og verður líklega lang­vinnari. Áskoranirnar verða því stærri en maður var að vona,“ segir Sonja Ýr.

Hún segir að helstu áhyggjurnar séu kannski af fólki sem falli milli skips og bryggju í úrræðum stjórnvalda. „Það er til dæmis þónokkur hópur sem hefur verið í sjálfskipaðri sóttkví og er þá tekjulaus á meðan. Sama gildir um foreldra sem hafa verið heima en ekki getað unnið vegna skerðingar á skólastarfi. Við höfum lagt mikla áherslu á að þessir hópar fái stuðning eins og aðrir.“

Sonja Ýr var kjörin formaður BSRB haustið 2018 en í fyrra var hún meðal ræðumanna á baráttufundi á Ingólfstorgi. Nú hefur ávarp hennar verið tekið upp og verður sýnt á netinu en þar að auki mun hún flytja stutt ávarp á skemmti- og baráttufundinum í kvöld.

„Við erum með átak á samfélagsmiðlum þar sem fólk getur búið til kröfuspjöld. Þannig geta allir sett fram sín skilaboð um hvað þeir vilji sjá í nýju og réttlátu þjóðfélagi. Samkenndin út af aðstæðunum gefur manni von fyrir framtíðina. Það er svona breytt forgangsröðun og við erum að endurhugsa hlutina.“