„Vinkona mín kom upp að mér og knúsaði mig. Ég sagði henni að ég væri bissý og hún fór.“ Þetta segir Bára Halldórsdóttir, um það sem fram kemur í bréfi lögmanns þingmanns Miðflokksins til Persónuverndar. Þar segir, samkvæmt frétt RÚV, að kona hafi komið inn á barinn og átt stutt erindi við Báru. Hún hafi afhent henni ljósan hlut og tekið við einhverjum smágerðum hlut sem Bára hafi rétt henni.

Bára kannast ekki við þetta. Hún hafi einfaldlega knúsað vinkonu sína, sem hafi svo farið. Þær hafi ekki skipst á neinum hlutum svo hana reki minni til. „Það var enginn sem rétti mér eitt eða neitt.“ Hún segir að niðurstaða dagsins komi henni ekki á óvart.

Í bréfinu kemur einnig fram, samkvæmt fréttinni, að fjórar mínútur hafi liðið frá því Bára yfirgaf Klaustur þar til hún opnaði bílinn sinn. Því er velt upp hvort Bára hafi á þeim tíma fundað með samverkamönnum sínum, en málflutningur Miðflokksmannanna hefur gengið út á það að sýna fram á að upptakan hafi verið þrælskipulögð.

Bára segir af og frá að hún hafi rætt við einhverja fyrir utan Klaustur. „Þegar ég labbaði út af staðnum gekk ég í kring um Dómkirkjuna. Ég vildi ekki vera í beinni sjónlínu við þau þegar ég labbaði af staðnum. Það tók ekki fjórar mínútur.“ Hún segir að ef mínúturnar hafi verið fjórar gangi hún hægar en hún gerði sér grein fyrir.

Næst á dagskrá hjá Báru er að bíða niðurstöðu Persónuverndar, en niðurstaða stjórnar Persónuverndar í dag laut aðeins að því hvort kallað yrði eftir gögnum um millifærslur til Báru frá fjármálafyrirtæki og símagögnum (smáskilaboðum til Báru) frá fjarskiptafyrirtæki. Þeirri beiðni hafnaði stjórn Persónuverndar. Bára á ekki von á niðurstöðu Persónuverndar fyrr en eftir um mánuð.

Bára viðurkennir að stundum taki þetta mál á hana. Hún reyni að vera dugleg að vinna að sínum verkefnum og að sinna fjölskyldunni. „Ég er búin að segja það frá upphafi að ég ætla ekki að kvarta yfir því að ganga alla leið með þetta. En ég hef ekkert endalausa orku,“ segir í samtali Fréttablaðið.

Hún hefur enga hugmynd um hvenær málinu lýkur en segist glettin vonast til að það verði fyrir næstu aldamót. „Ég hef ekki hugmynd.“ Hún á frekar von á því „miðað við allt þeirra blaður um undirbúning málsóknar“ að Miðflokksmenn muni höfða gegn henni einkamál. Málinu ljúki sennilega ekki fyrr en því verði lokið.