Bára Halldórsdóttir, sem tók upp samtal sexmenninganna á Klaustri í lok nóvember, segir í Facebook-hópnum Takk Bára að neikvæð ummæli á samfélagsmiðlum hafi í dag náð til hennar.

Í dag fékk Bára bréf þar sem hún var af fjórum þingmönnum boðuð til vitnaleiðslu í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir jól. Í hópnum er búið að stofna viðburð næstkomandi mánudag, þegar vitnaleiðslur fara fram. „Mætum, sýnum Báru stuðning og sýnum jafnframt hversu ömurlegt það er hjá þessum aðilum, ofan á það að kunna ekki að skammast sín, að kalla uppljóstrarann fyrir dóm!“

Í færslunni með skjóskotunum segir Bára að í gær og í dag hafi hversdagurinn tekið við, eftir fréttaflaum síðustu daga. „Leysa úr gjafainnkaupum, bensín á bílinn og jólastússinu, öryrkjajólin og verkirnir.“ Fram hefur komið að Bára er með fötlun.

„Fólk heldur mig hafa gert þetta fyrir peninga eða frægð þegar heildar tekjurnar í dag teljast saman sem ókeypis inn á Dragsýningu og engifer bjór, aðgangur að Stundinni og kók á kaffistofunni hjá stöð tvö,“ skrifar hún. 

Bára færir þeim sem stofnaði hópinn þakkir og segir að hún hafi líka fengið gulls virði af þökkum og blíðyrðum. Hún deilir svo 28 skjáskotum af umræðu um hana á Facebook, þar sem nokkrir netverjar níða af henni skóinn. „Það er mjög lítið mál að grenja sig inn á bætur,“ skrifar einn notandinn. Annar spyr hvort Bára lifi ekki bara á skattgreiðendum. Honum er reyndar bent á að það geri þingmennirnir líka. „Hún hleraði einkasamtal, birti það og lifir á skattgreiðendum. Hetja? Nei,“ skrifar Örn Johnson.

Þess má geta að margir koma Báru til varnar í spjallþræðinum.