Bára Halldórsdóttir, sem hljóðritaði samtal sex þingmanna á barnum Klaustur á dögunum, mætir til þinghalds í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan korter yfir þrjú í dag.

Um er að ræða beiðni frá Reimari Péturs­syni, lög­manni fjögurra þing­manna Mið­flokksins. Báru verður í dómnum gert ljóst að hugsan­lega verði höfðað mál gegn henni og að hún gæti þurft að grípa til varna. Á þriðja hundrað hefur boðað komu sína á samstöðufund fyrir utan héraðsdóm í dag, en þúsundir sýnt viðburðinum áhuga.

„Mætum, sýnum Báru stuðning og sýnum jafnframt hversu ömurlegt það er hjá þessum aðilum, ofan á það að kunna ekki að skammast sín, að kalla uppljóstrarann fyrir dóm!“ Segir á síðu fundarins. Þar er einnig ítrekað að mætingin sé fyrst og frest stuðningsyfirlýsing og fólk beðið um að geyma mótmæla aðgerðir.

Þá kemur fram að Bára hefur óskað eftir því að fundargestir mæti ekki í gulum vestum, að sið franskra gulvestunga. 

Greint var frá því í vikunni að Bára væri komin með lögmennina Ragnar Aðal­steins­son og Auði Tinnu Aðal­bjarnar­dóttur hjá lög­manns­stofunni Rétti til liðs við sig.