Bára Halldórsdóttir segir að frásagnir þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bergþórs Ólasonar, þingmanna Miðflokksins, af því sem fram komi á myndbandsupptökum úr öryggismyndavélum á Klaustur bar frá 20. nóvember á síðasta ári séu ekki réttar. Bára segir að hún telji að um sé að ræða „ótrúlega fallegt reykský“ vegna þess að Siðanefnd Alþingis komst að því að samtal þingmannanna hefði ekki verið einkasamtal.

„Augljóslega sjá þeir hlutina öðruvísi, en það eru hreinar rangfærslur í málflutningi þeirra. Ég hef séð þessar upptökur og ég sé ekki hvernig þeir geta séð þetta út úr þessu. Þetta er einfaldlega það að það er liðinn andmælaréttur varðandi málið hjá Siðanefnd og þeir eru með þessu að dreifa athygli frá því og frá ummælum sínum. Auðvitað er Bergþór fremstur í flokki þar, því hans ummæli voru með þeim verstu,“ segir Bára Halldórsdóttir í samtali við Fréttablaðið.

Hún segir þó að viðbrögð þeirra komi henni ekki á óvart.

„Í upptökunum kemur auðvitað fram, eins og Gunnar Bragi orðaði, að þeirra taktík er að „hjóla í helvítis tíkina“. Ég er eins og aðrar konur sem framkvæma „húrrandi klikkuð kunta“ og eitthvað til að máta kynfæri sín í,“ segir Bára.

Sigmundur Davíð segir í grein sem birt var á vef Fréttablaðsins í morgun að upptökur úr öryggismyndavél leiða í ljós aðra atburðarás á Klaustur bar í nóvember en birst hefur í fjölmiðlum. Hann segir upptökuna hafa verið skipulagða og Alþingi misbeitt í málinu. Bergþór Ólason sagði í Morgunblaðinu í dag að myndir úr upptökunum sýni aðra mynd en þá sem Bára hefur lýst.

Vildu að málið færi einungis til Persónuverndar

Bára segir að það sé einnig rangt, sem kemur fram í máli bæði Sigmundar og Bergþórs, að hún og lögmenn hennar hafi barist gegn því að upptökurnar kæmu fram.

„Við börðumst einfaldlega gegn því að málið yrði tekið fyrir á tveimur vígstöðvum og töldum að Persónuvernd væri hæfari til þess að taka ályktanir af þessu heldur en lögfræðingar þeirra,“ segir Bára.

Enn á Persónuvernd eftir að kveða upp úrskurð sinn og segir Bára að hún bíði þess. Hún og lögmenn hennar töldu að ekki hafi verið rétt staðið að málsókn þingmannanna í Landsrétti og að það væri réttari leið að Persónuvernd skoðaði málið.

„Ég er að bíða eftir Persónuvernd og ef eitthvað er að marka orð þeirra, þá er ég væntanlega að bíða eftir að fá einkamál á mig. Þetta er smá þraut, en ég tek ábyrgð á því sem ég gerði, ólíkt öðrum,“ segir Bára.

Bára ásamt lögmanni sínum Ragnari Aðalsteinssyni í héraðsdómi á síðasta ári
Fréttablaðið/Eyþór

Áhugavert að þeir séu fórnarlömbin

Fjöldi manns hefur í morgun birt færslur á samfélagsmiðlum og í lokuðum stuðningshóp Báru vegna yfirlýsinga þingmannanna. Bára segir að það sé alltaf gott að finna fyrir stuðningi.

„Það er gott að fá staðfestingu á því að mitt innra siðferðismat á því að þetta væri á almannafæri og ætti erindi við almenning er það sem að meirihluta fólks virðist finnast,“ segir Bára og bætir við:

„Ég er langveikur öryrki sem var þarna á réttum stað á réttum tíma, ef maður skyldi svo kalla. Það er auðvelt fyrir þá að beita lögmanni sínum endalaust á mig, án þess að hafa nokkuð fyrir því,“ segir Bára.

Hún segir að henni finnist undarlegt, miðað við það sem fram hafi komið á upptökunum, að þeir segi frá því að hafa verið lagðir í einelti á Alþingi og utan þess vegna upptakanna.

„Eftir að þeir töluðu svona um konur sem þeir vinna með. Mér finnst það áhugavert að þeir séu fórnarlömbin í þessari stöðu,“ segir Bára að lokum.