Bára Halldórsdóttir á­kvað að birta yfir­litið sitt eftir að greint var frá því fyrr í dag að lög­maður Klausturs­þing­mannanna fjögurra hafi lagt inn beiðni til Per­sónu­verndar um upp­lýsingar frá fjár­­mála­­fyrir­­­tækjum um greiðslur inn á reikning Báru Hall­­dórs­dóttur á tíma­bilinu 15. nóvember til 15. desember. Sam­kvæmt reiknings­yfir­liti Báru Hall­dórs­dóttur bárust henni ekki neinar háar óútskýrðar greiðslur frá fyrir­tækjum eða ein­stak­lingum á tíma­bilinu sem um ræðir.

„Ég hef ekkert að fela og það er ekkert til að fela. Þeir mega endi­lega ota sínum tota fram en ég er orðin þreytt. Ég er sjúk­lingur og hef ekki tíma né orku í þetta,“ segir Bára í sam­tali við Frétta­blaðið í dag.

Bára lætur fylgja út­skýringar á nokkrum greiðslum sem má sjá á yfir­litinu. Tryggingar­stofnun leggur inn á hana ör­yrkja­bætur þann 3. desember sem Bára segir að séu hærri en þær eru vana­lega, vegna þess að inni­falið í greiðslunni í desember er jóla­bónus.

Þá út­skýrir hún að 50.000 krónu greiðsla þann 27.12 frá Behcets á Ís­landi hafi verið til að greiða fyrir flug sem hún fór í á þeirra vegum. Þá er 40.000 króna greiðsla frá Sýn, sem er eigandi Stöðvar 2, þann 12.12. vegna myndbandsupptöku og ljósmyndar sem bæði voru tekin á Klaustur bar þann 20. nóvember.

Sjá má myndir af yfir­litinu fyrir tíma­bilið hér að neðan. Myndirnar eru birtar með leyfi Báru og hafa, að hennar beiðni, nöfn maka og barns verið strokuð út þar sem þau komu fram í millifærslun auk þess sem strokað er yfir föðurnöfn vina hennar sem koma fram í millirfærslun. Þá er strokað yfir stöðu reiknings og reikningsnúmer.

Eins og má sjá á yfirlitinu eru engar sér­stak­lega háar greiðslur utan þeirra sem hafa verið út­skýrðar hér að ofan. Á yfir­litinu má sjá 2.750 greiðslu á Klaustur bar þann 20. nóvember, þegar Bára tók upp samtal þingmannanna á Klaustur bar. Spurð hvað hún keypti sér á meðan hún hlustaði á þing­mennina segir hún að það hafi verið tveir kaffi­bollar og einn kok­teill.

Bára segir að hún sé orðin þreytt á málinu, en hefur þó á­kveði að nýta sér tæki­færið sem fylgir um­fjölluninni til að vekja at­hygli á sinni stöðu og annarra sem eru í svipaðri stöðu. Hún hóf í byrjun apríl hóp­söfnun á Karolina Fund til að fjár­magna gjörning sem fara á fram í sumar. Þar ætlar Bára að gefa fólki kost á því að fylgjast með henni og dag­legu lífi hennar sem ör­yrki. Hægt er að kynna sér verk­efnið nánar hér.

Fréttin hefur verið lagfærð klukkan 19:35. Báru voru greiddar 40.000 fyrir myndbandsupptöku og ljósmynd sem hún tók á Klaustur bar þann 20. nóvember og hún seldi Sýn. Greiðslan tengist ekki heimsókn hennar í Víglínuna þann 8. desember.