Murat Selivrada, einn hinna ákærðu í Rauðagerðismálinu svokallaða, neitaði sök í skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hann segir að Armando Beqirai, sem Angjelin Stark Merkaj játaði að hafa myrt þann 13. febrúar síðastliðinn, hafi verið vinur sinn.

Aðalmeðferð fer nú fram í Héraðsdómi Reykjavíkur og hafa bæði Angjelin og Claudia Car­va­hlo borið vitni. Nú situr Murat í vitnastúkunni og er svo Shpetim Qerimi á eftir honum en hann ók Angjelin að heimili Armando í Rauðagerði. Murat er talinn hafa hjálpað Claudiu og Angjelin að bera kennsl á bílana fyrir utan vinnustað Armando við Reykjavík downtown apartments.

„Vorum mjög góðir vinir“

Líkt og Claudia segist Murat ekki hafa vitað af skotárásinni fyrirfram. Þegar Kolbrún Benediktsdóttir sækjandi bað Murat að lýsa tengslum sínum við aðila í málinu sagðist hann hafa verið góður vinur fórnarlambsins.

„Armando er ein af fyrstu manneskjum sem ég kynntist. Við vorum að vinna í sömu byggingu þegar hann var að vinna á Palóma. Þarna vorum við að kynnast betur og við vorum mjög góðir vinir. Ég treysti honum fyrir öllu og trúi því ekki enn að hann sé ekki lifandi. Þetta er mjög þungt mál því hann er vinur minn og nú er ég líka ákærður í þessu máli. Það er mjög erfitt fyrir mig,“ sagði Murat.

Segist hann þekkja vel Þórönnu Helgu Guðmundsdóttur, ekkju Armando. Hún hafi komið oft í heimsókn og það hafi verið gott samband.

Segist hann hafa kynnst Angjelin í byggingarvinnu en hann hafi ekki verið náinn honum eða fjölskyldu hans. Aðspurður um aðdragandann að morðinu sagði Murat: „Ég fékk símtal frá Angjelin um að stjórarnir væru að hringja og hóta honum að þeir vildu hausinn hans en ég hugsaði ekki meira um það. Hélt að hann væri bara fullur eða á eiturlyfjum.“

Kolbrún Benediktsdóttir, sækjandi málsins.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hitti Shpetim í Borgargerði

Aðspurður um kvöldið sem Armando var myrtur sagðist Murat ekki muna hvort hann hefði hitt Angjelin. Kolbrún Benediktsdóttir sækjandi skaut þá inn í: „Við erum að tala um kvöldið sem góður vinur þinn var myrtur og þú mannst ekki hvort þú hafir hitt Angjelin?“

Viðurkenndi hann þá að hafa mögulega hitt Angjelin á einhverjum tímapunkti en kannski ekki rætt við hann. Hann segist hafa skutlað Shpetim heim til Angjelin og að hafa farið í bíltúr með Claudiu til þess að kaupa fíkniefni af manni sem kallaður var Donald. Segist hann hafa hitt Shpetim í Borgargerði til að ræða framkvæmdir á baðherbergi. Borgargerði er gatan sem liggur frá Rauðagerði.

Claudia og Angjelin halda því fram að Murat hafi sýnt þeim hver ætti hvítan Ford bíl fyrir utan heimili Armando en Murat segist ekki kannast við það.

Murat var stöðvaður af lögreglu þennan dag og samkvæmt lögregluskýrslu sagðist hann vera á leiðinni heim til Angjelin. Murat ítrekaði að hann hafi einungis verið á leiðinni til Angjelin til að sækja Shpetim.

Murat á leiðinni í héraðsdóm í morgun ásamt verjanda sínum.
Fréttablaðið/Anton Brink